Mér fannst þetta vera vítaspyrna

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar. mbl.is/Eyþór

„Það var drullufúlt að hafa ekki fengið neitt úr þessum leik,“ sagði Ólafur Kristjánsson eftir naumt 1:0-tap gegn Val í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld.

„Ég er hundfúll með það að við skulum halda að þegar við erum farnar að sjá til lands að þá slökknar á einbeitingunni og Valur skorar eftir aukaspyrnu þar sem við dekkum ekki,“ sagði Ólafur Kristjánsson í viðtali við mbl.is eftir leik.

Leikurinn stefndi í markalaust jafntefli þar til hin 16 ára Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skoraði sigurmark Vals á lokamínútu venjulegs leiktíma.

„Þetta var 0:0 leikur sem var að detta í fast leikatriði eða skyndisókn öðru hvoru megin. Liðin voru þreytt svo skyndisóknin var síður möguleiki,“  sagði Ólafur

Í fyrri hálfleik átti Kristrún Rut Antonsdóttir skot í hendina á Málfríði Ernu Sigurðardóttur í teig Vals. Gunnar Freyr Róbertsson, dómari leiksins, dæmdi ekkert og var Ólafur ósammála því.

„Eins og ég sá þetta hér frá hliðarlínunni fannst mér þetta vera vítaspyrna. Þegar ég fæ svarið frá fjórða dómaranum að fjarlægðin á milli leikmannanna hafi ekki verið nógu mikil þá er það staðfesting á að boltinn hafi farið í hendina,“ sagði Ólafur.

Þessi leikur endurspeglar tímabilið hjá ykkur. Þið eruð heilt yfir að spila vel út á velli en ekki að koma boltanum í netið. Hvernig ætlið þið að leysa þetta vandamál?

„Það kemur í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert