Reynslan kláraði þetta fyrir okkur

Helgi Guðjónsson, leikmaður Víkings.
Helgi Guðjónsson, leikmaður Víkings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Guðjónsson, leikmaður Víkings, var eðlilega ánægður eftir að liðið komst í bikarúrslit eftir sigur á Stjörnunni í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld.

„Þetta er mikill léttir. Léttir að hafa náð að klára þetta.“

Víkingur leiddi allt fram að síðustu sekúndu uppbótartíma venjulegs leiktíma en þá jafnaði Stjarnan og tryggði sér framlengingu.

„Við lágum á þeim í framlengingunni og ég hélt að við myndum setja annað mark. Markmaðurinn þeirra ver á einhvern ótrúlegan hátt frá Gísla Gottskálk um miðbik seinni hálfleiksins í framlengingunni. Ég hélt að þetta myndi detta en bara frábært að ná svo að klára þetta í vító.“

Helgi segir að trúin hafi aldrei farið en á tímabili leit þetta jafnvel út eins og einn af þeim dögum þar sem hlutirnir bara falla ekki fyrir þig.

„Nei eiginlega ekki. Það kemur auðvitað smá fiðringur en mér fannst við vera með algjöra stjórn og herja á þá. Þegar þetta fer svo í vító vissi maður að Ingvar væri frábær í vítum og að við værum með frábærar skyttur svo ég hafði alltaf trú á þessu.“

Það sást langar leiðir hve yfirvegaðir Víkingar voru á punktinum og var í raun og veru enginn þeirra nálægt því að klikka. Helgi var einn af þeim sem skoraði úr víti og gerði það af miklu öryggi.

„Sumir okkar taka víti af og til en við erum bara með frábærar skyttur. Það er bara svo mikil reynsla í þessu liði, við höfum verið í alls konar sporum áður, vítaspyrnukeppnum, framlengingum og hverju sem er í þessum bikar. Ég held að það hafi skilað sér og klárað þetta fyrir okkur.“

Víkingur mætir KA í úrslitum en sömu lið mættust í úrslitaleiknum í fyrra.

„Ég held að það breyti engu að fá sama lið og í fyrra. Við erum alltaf 100 prósent klárir þannig ég bara get ekki beðið.“

Víkingur virðist hreinlega vera óvinnandi vígi í bikarkeppninni.

„Liðin verða bara að halda áfram að reyna. Við ætlum okkur að koma í veg fyrir það áfram,“ sagði Helgi að lokum og hló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert