Spilum orkumikinn fótbolta

Hlynur Svan Eiríksson ásamt bróður sínum Guðna í dag.
Hlynur Svan Eiríksson ásamt bróður sínum Guðna í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Hlynur Svan Eiríksson var hálf raddlaus þegar mbl.is fékk hann í viðtal eftir góðan sigur FH á Þór/KA á Þórsvellinum á Akureyri.

Hlynur og Guðni bróðir hans þjálfa lið FH og mátti heyra vel í þeim af hliðarlínunni allan leikinn. FH-ingar voru mjög þéttir og skipulagðir í leiknum og fundu heimakonur enga leið til að koma inn marki enda færin af skornum skammti. FH fagnaði 1:0 sigri.

„Við lokuðum vel á Þór/KA í þessum leik. Mér fannst miðjumennirnir okkar gera þetta vel. Þær fengu aldrei möguleika á að nýta sína styrkleika og náðu engum sendingum í gegn um varnarlínuna okkar. Þær eru mjög sterkar í því og við vitum það. Ég vil bara hrósa miðjunni okkar.“

Lærðum mikið af því

Þór/KA vann ykkur 4:0 í fyrri umferðinni og þar skoruðu þær nánast úr öllum skotunum sínum. Þið hljótið nú að hafa verið staðráðin í að svara fyrir þann leik.

„Ja, ekkert sérstaklega. Við lærðum náttúrulega mikið af þeim leik og við reyndum að loka fyrir þær leiðir sem Þór/KA nýtti sér í þá.“
Leikur ykkar virkaði mjög massífur og Þór/KA skapaði sáralítið.

„Við erum eð gott lið, grimmt og orkumikið lið. Við spilum bara á okkar styrkleikum og við spilum orkumikinn fótbolta. Þetta er svolítið svona ping-pong á móti okkur og við vitum það. Okkur líður vel í svoleiðis hasar. Það var vel tekist á í leiknum en aldrei neitt gróft. Ég var nú að horfa á þetta seinna gula spjald sem Elísa Lana fékk. Það var alveg galið. Þetta var ekki neitt. Æ. Ég veit ekki. Umræðan um FH að þær séu eitthvað grófar. Þær eru ekki grófar en þær láta finna fyrir sér.“

Hvað fannst þér þá um dómgæsluna?

„Hún var í heildina mjög fín. Ég er bara ekki sáttur við þetta seinna gula spjald. Fyrra gula spjaldið var hárrétt. Þú átt ekki að sparka boltanum í burtu eftir að það er búið að brjóta en seinna gula er bara galið. Ég er búinn að vera að horfa á þetta og er að reyna að átta mig á þessu. Hvar er brotið?“

„Burtséð frá þessu þá erum við bara rosalega glöð að koma hingað og taka þrjú stig. Það er hrikalega erfitt að koma hingað og ná sigri. Þetta var því virkilega sterkt og gefur okkur vonandi byr í næstu leiki. Þetta er gamli heimavöllurinn minn og frábært að koma aftur norður. Það er vel tekið á móti manni. Ég elska Þór,“ sagði Hlynur Svan að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert