Bikarmeistararnir í úrslit í fimmta sinn í röð

Danijel Dejan Djuric kom Víkingum yfir.
Danijel Dejan Djuric kom Víkingum yfir. mbl.is/Árni Sæberg

Víkingur mætir KA í úrslitum bikarkeppni karla eftir sigur á Stjörnunni í vítaspyrnukeppni eftir framlengdan leik í undanúrslitum á Víkingsvelli í kvöld. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 1:1 og sömuleiðis að lokinni framlengingu. Bikarúrslitaleikurinn verður því endurtekning frá leiknum í fyrra.

Víkingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik venjulegs leiktíma og héldu boltanum mjög vel án þess að ná að skapa sér mikið af færum. Erlingur Agnarsson fékk þó kjörið tækifæri til að koma liðinu yfir strax á sjöundu mínútu en lúmskt skot hans af stuttu færi small í stönginni.

Stjörnumenn voru mjög þéttir til baka og vörðust vel en planið var greinilega að beita skyndisóknum og reyna að skora þannig. Liðið náði þó takmarkað að ógna þegar færi til skyndisókna gáfust og áttu Garðbæingar ekki margar skottilraunir.

Víkingar komust svo yfir á 42. mínútu en Pablo Punyed vann þá boltann með góðri tæklingu rétt fyrir utan vítateig Stjörnunnar. Þaðan barst boltinn á Danijel Dejan Djuric sem lagði hann fyrir sig vinstra megin í teignum og hamraði honum niðri í nærhornið þar sem Mathias Rosenörn kom engum vörnum við.

Djuric kom sér aftur í fínt færi í upphafi síðari hálfleiks, á svipuðum stað og hann skoraði markið. Í þetta skiptið hitti hann boltann hins vegar ekki jafn vel og skotið framhjá markinu. Seinni hálfleikurinn var eftir það mjög svipaður þeim fyrri, Víkingur meira með boltann en afar lítið markvert að gerast.

Stjarnan fékk dauðafæri til að jafna metin á 84. mínútu en eftir frábæra sókn barst boltinn til Óla Vals Valdimarssonar sem var aleinn hægra megin í vítateignum. Hann lét vaða en Ingvar Jónsson sá við honum með góðri markvörslu.

Stjörnumenn reyndu hvað þeir gátu að jafna metin á lokamínútunum en Víkingar léku af mikilli skynsemi og vörðust vel. Þeir hins vegar komu engum vörnum við þegar einungis örfáar sekúndur voru eftir af uppbótartímanum en þá kom há sending inn á teiginn, Örvar Eggertsson vann skallaeinvígi áður en Guðmundur Kristjánsson smellti boltanum á lofti alveg út við stöng, óverjandi fyrir Ingvar. Rosaleg dramatík og þurfti því að framlengja leikinn.

Strax í upphafi framlengingar fékk varamaðurinn Davíð Örn Atlason mjög gott færi en Rosenörn varði skot hans úr teignum mjög vel. Hann fékk svo annað færi skömmu síðar en þá setti hann boltann hátt yfir markið úr teignum. Víkingar virtust eiga meira á tanknum í framlengingunni en staðan var þó enn jöfn í hálfleik.

Á 108. mínútu fékk svo varamaðurinn Gísli Gottskálk Þórðarson sannkallað dauðafæri. Hann gerði í raun og veru allt rétt, setti boltann fast á markið eftir fyrirgjöf frá hægri en Mathias Rosenörn sá við honum með algjörlega stórkostlegri markvörslu. 

Það voru greinileg og eðlileg þreytumerki í báðum liðum í framlengingunni og eftir færi Gísla gerðist fátt markvert. Víkingar töluvert meira með boltann en sköpuðu lítið. Því þurfti að lokum að grípa til vítaspyrnukeppni.

Í vítaspyrnukeppninni voru það svo Víkingar sem reyndust sterkari á taugunum og unnu sigur í þessum maraþonleik. Víkingar skoruðu úr öllum sínum spyrnum af miklu öryggi, þar sem greinilegt var hve yfirvegaðir þeir voru. Haukur Örn Brink, leikmaður Stjörnunnar var sá eini klikkaði en Ingvar Jónsson varði spyrnu hans virkilega vel.

Það verða því Víkingur og KA sem mætast í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Valur 1:0 Þróttur R. opna
90. mín. Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir (Valur) skorar 1:0 - Valur tekur forystuna! Anna Rakel með frábæra fyrirgjöf inn á teiginn sem finnur Ragnheiði sem klárar frábærlega í markið.
Þór/KA 0:1 FH opna
90. mín. Leik lokið Mjög góður sigur FH. Leikmenn Þórs/KA voru aldrei líklegir til að skora.

Leiklýsing

Víkingur R. 6:5 Stjarnan opna loka
121. mín. Viktor Örlygur Andrason (Víkingur R.) skorar úr víti Rosalega öruggur! Alveg eins og Helgi tekur hann smá hik sem sendir Rosenörn í vitlaust horn!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert