Ætlum að komast í efri hlutann

Jordyn Rhodes hefur skorað sex af tólf mörkum Tindastóls á …
Jordyn Rhodes hefur skorað sex af tólf mörkum Tindastóls á tímabilinu. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Það væri skemmtilegt að verða markahæsti leikmaður deildarinnar, segir bandaríska knattspyrnukonan Jordyn Rhodes í samtali við Morgunblaðið.

Hún var besti leikmaður Bestu deildar kvenna í fótbolta í júní, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins en hún fékk fimm M í fjórum leikjum Tindastólsliðsins í mánuðinum.

Jordyn er bandarískur framherji, 24 ára gömul. Hún skoraði fjögur mörk fyrir Tindastól í deildinni í júnímánuði og hefur skorað sex mörk í deildinni hingað til.

Hún átti frábæran mánuð en liðið vann þó aðeins einn leik, gerði eitt jafntefli og tapaði tveimur á móti liðum sem þær skagfirsku eru í baráttu við í neðri hluta deildarinnar.

Best í deildinni

Þetta hefur verið frábær mánuður fyrir mig persónulega en liðið hefur tapað stigum. Við höfum ekki verið með allan hópinn vegna meiðsla en erum að reyna að þjappa okkur saman, sagði Jordyn við Morgunblaðið.

Hún kom Tindastóli yfir gegn Þrótti snemma í leik liðanna en Skagfirðingar töpuðu svo leiknum, 4:2.

Ég kom með mikið sjálfsöryggi inn í leikinn og við spiluðum vel í fyrri hálfleik. Við fengum fleiri tækifæri til þess að skora. Leikurinn endaði svo 4:2 því við gáfum þeim tækifæri til þess að komast aftur inn í leikinn sem við erum ekki ánægðar með. Við getum samt lært heilmikið af þessu og munum taka fullt af punktum úr þessum leik og nýta okkur út tímabilið.

Mikilvægt í Keflavík

Jordyn skoraði svo bæði mörk Tindastóls í 2:0-sigri liðsins á útivelli gegn Keflavík sem var mikilvægur sigur fyrir liðið til þess að klifra upp töfluna.

Við vissum hversu mikilvægur þessi leikur var. Við þurftum þrjú stig til þess að koma okkur ofar þar sem við viljum vera. Ég er mjög þakklát fyrir liðsfélaga mína, þær bjuggu til þessar stöður fyrir mig sem ég gat nýtt, ég gæti þetta ekki án þeirra.

Viðtalið við Jordyn má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert