Misstum hausinn, ekki vanar því

Aldís Guðlaugsdóttir markvörður FH grípur boltann gegn Breiðablik í kvöld.
Aldís Guðlaugsdóttir markvörður FH grípur boltann gegn Breiðablik í kvöld. mbl.is/Óttar

„Við vorum góðar framan af en hefðum getað byrjað enn sterkari, fáum svo á okkur mark sem mér fannst mér að kenna en stelpurnar bökkuðu mig upp,“ Aldís Guðlaugsdóttir markvörður FH.

Hún átti góðan leik gegn Breiðabliki í kvöld þegar siðasti leikur 12. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta fór fram en gat ekki komið í veg fyrir 4:0 sigur Blika eftir að dofnaði yfir Hafnfirðingum.

„Við komum svo inn í seinni hálfleikinn og ætluðum að mæta aðeins betur eftir að hafa farið yfir skipulagið inni í klefa en svo fáum við næsta mark á okkur og misstum þá aðeins hausinn, sem er sjaldgæft fyrir okkur FH-inga því við missum oftast ekki hausinn.“

Framundan er landsleikjahlé í næstum tvær vikur.  „Við hefðum auðvitað viljað fara inn í hléið í deildinni með sigri en það er reyndar allt gott að vinna leiki.  Við tökum nú þessa pásu alvarlega, hvílum vel auk þess að það eru margar meiddar hjá okkur, til dæmis í þessum leik þegar við vorum ekki með fullan varamannabekk.“

FH er nú í 4. sæti deildarinnar en endaði í 5. sæti eftir 22 leiki í fyrra.  „Okkar plan er alltaf að vinna alla leiki og gera okkar besta.  Auðvitað viljum við enda ofar í stigatöflunni en í fyrra, það lítur allt út fyrir að svo verði ef við höldum haus í þessum leikjum sem við eigum eftir og höldum áfram að bæta það sem þarf að bæta,“ bætti Aldís við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert