Ólafsvíkingar enn ósigraðir

Brynjar Kristmundsson er þjálfari Víkings Ólafsvíkur.
Brynjar Kristmundsson er þjálfari Víkings Ólafsvíkur. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Víkingur Ólafsvík lagði Ægi, 3:1, í 2. deild karla í knattspyrnu í dag. Liðið er því enn ósigrað með sex sigra og fimm jafntefli.

Víkingur er í öðru sæti með 23 stig, tveimur stigum á eftir Selfossi sem mætir KFG á heimavelli á morgun.  

Ingvar Freyr Þorsteinsson skoraði öll þrjú mörk Ólafsvíkinga í dag en mark Ægis skoraði Búlgarinn Toma Ivov Ushagelov.  

Austfirðingar með 3:0 sigra

KFA fékk Kormák/Hvöt í heimsókn og hafði betur, 3:0. Öll mörkin komu í fyrri hálfleik en Matheus Bettio skoraði fyrsta markið og síðan skoraði Eiður Orri Ragnarsson tvennu. 

KFA er áfram í þriðja sæti deildarinnar með 22 stig en Kormákur/Hvöt er í níunda sæti með 12 stig.  

Höttur/Huginn mætti Reyni í Sandgerði og vann sannfærandi 3:0 sigur. Martim Sequeira skoraði fyrsta mark leiksins í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Sæbjörn Guðlaugsson tvöfaldaði forystuna á 84. mínútu og á 87. mínútu gerði Víðir Freyr Ívarsson út um leikinn. 

Reynir er komið í botnsætið með fimm stig en Höttur/Huginn er í sjöunda sæti með 15 stig.  

KF af botninum

KF sigraði Hauka, 2:0, á Ólafsfirði. Vitor Vieira Thomas skoraði fyrsta mark leiksins á 20. mínútu og í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Edu Cruz annað mark KF.  

Sigurinn þýðir að KF fer af botninum upp í 11. sætið með sjö stig en Haukar eru í áttunda sæti með 14 stig. 

Þróttur fór létt með Völsung

Þróttur Vogum valtaði yfir Völsung, 5:0, í Vogunum. Í hálfleik var staðan 4:0.  Haukur Darri Pálsson skoraði tvö mörk og Haukur Leifur Eiríksson og Guðni Sigþórsson gerðu sitthvort markið. Það var síðan varamaðurinn Eiður Baldvin Baldvinsson setti síðasta naglann í kistu Völsunga með fimmta markinu á 70. mínútu.  

Úrslitin þýða að Þróttur fer upp fyrir Völsung í fjórða sætið með 19 stig. Völsungur er með 16 stig í fimmta sæti.  

Síðasti leikur umferðarinnar fer á morgun þegar Selfoss fær KFG í heimsókn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert