Anton: Endastöðin á vegferðinni

Anton Sveinn McKee er mættur á sína fjórðu og síðustu …
Anton Sveinn McKee er mættur á sína fjórðu og síðustu Ólympíuleika. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee er mættur á sína fjórðu og síðustu Ólympíuleika í París en hann stingur sér til sunds í 100 metra bringusundi klukkan 9:30 í dag.

„Það er alltaf skemmtilegt að vera kominn á það sem segja má að sé endastöðin á þeirri vegferð sem maður er búinn að vera á. Endastöð í öllu sem maður hefur lagt í sölurnar. Það er ekkert sem er hægt að bæta eða breyta núna. Maður þarf að keyra á þetta,“ sagði Anton í samtali við mbl.is við ólympíuþorpið í París, þar sem hann kann vel við sig.

„Það er ákveðið andrúmsloft. Það er mikil spenna í loftinu og það eru allir með sín markmið. Það er mikil virðing keppenda. Það eru allir staðráðnir í að gera sitt besta fyrir sitt fólk. Þetta er andrúmsloft sem er mjög gaman að vera í,“ sagði hann.

Anton þurfti að bíða í fjóra tíma eftir að fá inngöngu í ólympíuþorpið vegna mistaka mótshaldara.

„Þetta eru hlutir sem þú stýrir ekki og maður verður að taka því sem gerist. Maður verður bara að sitja, brosa og hlægja í gegnum þetta,“ sagði hann.

Anton er sáttur við keppnishöllina í París. „Hún er til fyrirmyndar, allt mjög flott og ég get ekki verið annað en sáttur,“ sagði Anton Sveinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert