Ísland gott lið en með ákveðna veikleika

Robert Prosinecki er þjálfari Svartfjallalands.
Robert Prosinecki er þjálfari Svartfjallalands. Ljósmynd/UEFA

Robert Prosinecki, þjálfari karlalandsliðs Svartfjallalands, segir að fram undan sé erfiður leikur gegn góðu liði Íslands í Þjóðadeildinni í fótbolta á föstudagskvöldið.

Liðin mætast á Laugardalsvellinum í fyrstu umferð keppninnar en hin tvö liðin í riðlinum eru Tyrkland og Wales. Sigurlið riðilsins vinnur sér sæti í A-deild en neðsta liðið fellur niður í C-deild.

„Ísland er með hörkulið sem notar leikaðferðina 4-4-2 og vann England í vináttulandsleik í sumar. Leikmennirnir eru grimmir og sterkir, sérstaklega þegar þeir spila á heimavelli,“ sagði Prosinecki við fjölmiðla í Podgorica áður en liðið hélt af stað til Íslands.

„Margir íslensku leikmannanna spila með sterkum félagsliðum og þeir sýndu líka sín gæði í umspilinu fyrir EM í vor, jafnvel þó þeir hefðu að lokum verið slegnir út af Úkraínumönnum.

En það eru líka veikleikar í íslenska liðinu og við munum reyna að nýta okkur þá,“ sagði Prosinecki sem er 55 ára gamall og var í stóru hlutverki í liði Króatíu í kringum síðustu aldamót, þegar liðið vann til bronsverðlauna á HM, og þá spilaði hann m.a. með bæði Real Madrid og Barcelona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert