Bologna hafnaði öllum tilboðum í Andra

Andri Fannar Baldursson
Andri Fannar Baldursson Eyþór Árnason

Knattspyrnumaðurinn Andri Fannar Baldursson fór ungur að árum til Bologna á Ítalíu og var aðeins 18 ára gamall þegar hann lék með liðinu í ítölsku A-deildinni.

Varð hann í leiðinni yngsti Íslendingurinn til að spila í einni af fimm sterkustu deildum Evrópu. Hann er enn samningsbundinn Bologna en hefur ekki spilað með liðinu í tæp fjögur ár. Hann er sem stendur að láni hjá Elfsborg í Svíþjóð. 

„Ég er samningsbundinn til 2025 með möguleika á framlengingu til 2026. Á meðan ég hef verið hjá Elfsborg hafa komið nokkur kauptilboð í mig en þeim var öllum hafnað því ég var ekki til sölu.

Þeir hafa greinilega enn trú á mér og vilja ekki losna við mig. Það gaf mér neista að vita af því, því ég vil spila hjá Bologna. Hvort það tekst eða ekki verður að koma í ljós. Við tökum stöðuna í janúar, því ég er hjá Elfsborg út desember,“ sagði Andri við mbl.is. 

Hann var fyrst lánaður til FC Kaupmannahafnar í Danmörku og síðan NEC Nijmegen í Hollandi, áður en leiðin lá til Svíþjóðar. 

Andri Fannar leikur með íslenska 21-árs landsliðinu gegn Dönum í undankeppni Evrópumótsins á Víkingsvellinum klukkan 15 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert