„Allt var í tómu tjóni utan vallar“

Jóhann Berg Guðmundsson og Orri Steinn Óskarsson fagna marki þess …
Jóhann Berg Guðmundsson og Orri Steinn Óskarsson fagna marki þess síðarnefnda í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er mjög ánægður, það var kominn tími til þess að vinna leik í þessari Þjóðadeild,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur liðsins gegn Svartfjallalandi í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli í kvöld.

Orri Steinn Óskarsson og Jón Dagur Þorsteinsson skoruðu mörk íslenska liðsins en þau komu bæði eftir hornspyrnur í sitthvorum hálfleiknum.

„Það hefur gengið brösuglega hjá okkur í Þjóðadeildinni en frammistaðan í kvöld var mjög fagmannleg hjá okkur. Sölvi Geir Ottesen hefur komið inn með góða og jákvæða orku og það sýndi sig og sannaði í dag að það sem hann er búinn að vera æfa með okkur í vikunni virkaði vel. Það er fullt af jákvæðum hlutum sem við getum tekið með okkur út úr þessum leik,“ sagði Jóhann Berg.

Allt á réttri leið

Íslenska liðið virðist vera á réttri leið og landsliðsfyrirliðinn horfir björtum augum á framtíðina.

„Það er búið að tala lengi um einhverja vegferð og við erum klárlega á réttri leið. Við erum aðeins komnir aftur í þessi grunngildi en þorum á sama tíma að halda í boltann þannig að þetta lítur vel út hjá okkur eins og staðan er í dag.“

Íhugaði Jóhann einhvern tímann að leggja landsliðskóna á hilluna þegar liðinu gekk sem verst?

„Alls ekki. Auðvitað komu tímar þar sem þetta var ekkert sérstaklega gaman. Það var fullt af hlutum þar sem allt var í tómu tjóni utan vallar. Auðvitað var það ekki skemmtilegt en núna er allt í toppmálum hjá KSÍ og allir að róa í sömu átt. Við viljum komast aftur á stórmót og vonandi tekst það hjá okkur. Við höfum verið nálægt því í gegnum tíðina og við þurfum að koma okkur inn á stórmót,“ sagði Jóhann Berg í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert