„Ég hafði ekki hugmynd um þetta!“

Jóhann Berg Guðmundsson og Gylfi Þór Sigurðsson á Laugardalsvelli í …
Jóhann Berg Guðmundsson og Gylfi Þór Sigurðsson á Laugardalsvelli í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hafði ekki hugmynd um þetta,“ sagði Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi íslenska liðsins á Laugardalsvelli í kvöld.

Íslenska liðið vann sinn fyrsta sigur í riðlakeppni Þjóðadeildarinnar frá því keppnin var sett á laggirnar árið 2018 en íslenska liðið fangaði sigri gegn Svartfjallalandi, 2:0, í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildarinnar á Laugardalsvelli í kvöld.

„Ég frétti af því að San Marínó hefði unnið og að Ísland væri eina liðið sem ætti eftir að vinna leik í keppninni. Ég er mjög sáttur með þennan sigur og það var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að  byrja keppnina vel. Þetta gefur strákunum mikið sjálfstraust, fyrir komandi leiki.

Við unnum mjög vel saman alla vikuna. Við erum búnir að vera vinna markvisst í sömu hlutum alveg síðan í mars og Sölvi Geir Ottesen á mjög stórt hrós skilið fyrir hans innkomu í þjálfarateymið. Hann einbeitti sér að varnarleiknum og föstu leikatriðunum og þau skiluðu sér svo sannarlega í kvöld,“ sagði Hareide.

Þá gerast góðir hlutir

Bæði mörk íslenska liðsins komu eftir hornspyrnur og liðið ógnaði einna helst í leiknum úr föstum leikatriðum.

„Þetta sýnir okkur það svart á hvítu að ef þú vinnur nógu lengi í ákveðnum hlutum, þá gerast góðir hlutir. Þeir sem komu inn á stóðu sig líka vel sem er mjög mikilvægt fyrir okkur því við þurfum leikmenn á bekknum sem geta breytt leikjunum fyrir okkur.“

Ísland mætir Tyrklandi í Ízmir á mánudaginn kemur og reiknar þjálfarinn með því að gera nokkrar breytingar á byrjunarliðinu fyrir þann leik.

„Við munum gera slatt af breytingum á byrjunarliðinu, það er alveg klárt. Þetta snýst ekki um það hvort þeir sem spiluðu í dag stóðu sig vel eða illa. Þetta snýst fyrst og fremst um það að dreifa álaginu. Við þurfum ferskar fætur gegn sterku liði Tyrklands,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert