Þetta var í hita leiksins

Stefán Teitur horfir á Orra Stein Óskarsson skora fyrra mark …
Stefán Teitur horfir á Orra Stein Óskarsson skora fyrra mark leiksins. Árni Sæberg

„Mér fannst við vera með stjórn á þessu allan leikinn,“ sagði Stefán Teitur Þórðarson miðjumaður íslenska landsliðsins í fótbolta í samtali við mbl.is eftir sigur á Svartfjallalandi, 2:0, í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli í kvöld.

„Þetta spilaðist eins og við vildum allan tímann. Mér fannst við komast í góð færi og góðar stöður í öllum leiknum. Við hefðum getað klárað þetta 3:0. Við lokuðum líka vel á þá og Hákon með allt á hreinu fyrir aftan,“ bætti hann við.

Stefán átti flottan leik á miðjunni við hliðina á reynsluboltanum Jóhanni Berg Guðmundssyni. „Það var góð reynsla að hafa Jóhann með mér. Við pössum vel saman. Samspilið okkar gekk vel og svo var gott að hafa Gylfa fyrir framan okkur.“

Skagamaðurinn átti flotta tæklingu eftir góðan sprett til baka undir lok leiks og fagnaði eins og hann væri að skora mark.

„Mér fannst ógeðslega gaman að vera inni á vellinum. Við töluðum um það að fagna öllu og gera þetta eins sem lið. Þetta fagn var í hita leiksins,“ sagði hann.

Ísland mætir Tyrklandi á útivelli á mánudaginn kemur í næsta leik í keppninni. „Það er stutt á milli leikja og langt ferðalag fram undan. Maður er miklu ferskari eftir sigur,“ sagði Stefán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert