Annað tap gegn Wales

Hilmir Rafn Mikaelsson með boltann í dag.
Hilmir Rafn Mikaelsson með boltann í dag. mbl.is/Eyþór Árnason
Lið Íslands skipað leikmönnum 21 árs og yngri lék gegn undir 21 árs liði Wales í undankeppni EM 2025 á Víkingsvelli í dag og lauk leiknum með sigri Wales, 2:1.

Ísland er í þriðja sæti I riðils með 9 stig en Wales í öðru sæti með 14 stig. Danmörk vann Tékkland 5:0 og er á toppi riðilsins, einnig með 14 stig. Ísland á tvo leiki eftir en hin liðin einn leik hvort og íslenska liðið á því enn möguleika á að ná öðru tveggja efstu sætanna með því að vinna báða leiki sína.

Það var kalt og mikill vindur á vellinum í dag og hafði það áhrif á leikinn. Íslenska liðið lék fyrri hálfleikinn með vindinn í fangið en leikurinn fór mjög rólega af stað.

Leikmenn Wales héldu boltanum mjög vel og voru betri aðilinn í fyrri hálfleik þrátt fyrir að hvorugt liðið hafi skapað sér afgerandi færi í fyrri hálfleik.

Fyrsta skot leiksins kom á 7. mínútu leiksins þegar Joel Cotterill skaut að marki Íslands en boltinn fór rétt framhjá markinu.

Á 19. mínútu leiksins átti Finley Stevens skot að marki úr þröngu færi en skot hans endaði í stönginni.

Á 34. mínútu vildi íslenska liðið fá vítaspyrnu en dómari leiksins gaf strax til kynna að hann myndi ekki verða við því.

Líklega eina færi Íslands í fyrri hálfleik kom á 43. Mínútu þegar Hilmir Rafn Mikaelsson átti skot sem Edward Beach markvörður Wales varði í hornspyrnu.

Joel Cotterill átti skot að marki Íslenska liðsins áður en fyrri hálfleikur var allur en Lúkas Blöndal Petersson fékk skot hans beint í fangið.

Staðan í hálfleik markalaus 0:0.

Leikmenn Wales hófu síðari hálfleikinn á marki. Þar var að verki Joel Cotterill eftir mistök inni í vítateig íslenska liðsins. Staðan 1:0 fyrir Wales.

Það lifnaði talsvert yfir íslenska liðinu í kjölfarið og áttu þeir Kristall Máni Ingason og Hlynur Freyr Karlsson skot að marki Wales sem bæði rötuðu framhjá markinu.

Joel Cotterill var ekki langt frá því að bæta öðru marki við á 62. mínútu leiksins þegar hann slapp einn inn fyrir vörn Íslands en Lúkas Blöndal sá við honum.

Á 64. mínútu leiksins tognaði Róbert Orri Þorkelsson þegar hann var að elta uppi sóknarmann Wales. Í kjölfarið gerði íslenska liðið tvöfalda skiptingu.

Annað mark Wales kom á 72. mínútu leiksins. Þar var aftur að verki Joel Cotterill en hann skoraði af öryggi eftir að hafa leikið sér að varnarmanni íslenska liðsins. Staðan 2:0 fyrir Wales.

Þegar þrjár mínútur voru liðnar af uppbótartíma minnkaði Ísland muninn í 2:1 þegar Óskar Borgþórsson skoraði fallegt mark inni í teig Wales eftir harða baráttu í teignum þar sem Valgeir Valgeirsson kom boltanum til hans.

Lauk leiknum með sigri Wales 2:1.
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland U21 1:2 Wales U21 opna loka
90. mín. Leik lokið +5 Leiknum lýkur með eins marks sigri Wales.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert