Þeir eru stórir og sterkir

Ólafur Guðmundsson í leiknum í dag.
Ólafur Guðmundsson í leiknum í dag. mbl.is/Eyþór Árnason
Ólafur Guðmundsson leikmaður U21 landsliðs Íslands var ekki á því að 2:1 tap gegn U21 landsliði Wales hafi verið sanngjörn úrslit þegar mbl.is leitaði viðbragða hjá honum strax eftir leik sem fram fór á Víkingsvelli í dag.

Spurður nánar út í leikinn sagði Ólafur þetta:

„Þetta var hörku leikur sem var spilaður við erfiðar aðstæður. Það var mikið rok og lið Wales er gríðarlega sterkt. Þetta var mjög erfitt í dag.“
Var eitthvað sem kom þér á óvart í þeirra leik?

„Nei, ég get ekki sagt það. Við vissum alveg komandi inn í þennan leik hvernig þeir myndu spila. Þeir eru stórir og sterkir, fastir fyrir og spila þennan hefðbundna breska fótbolta eins og við þekkjum hann,“ sagði hann.

Þið haldið hreinu með vindinn í fangið í fyrri hálfleik. Það voru því væntanlega vonir um að þið fengjuð eitthvað út úr seinni hálfleiknum með vindinn í bakið. Var þetta mikið áfall að fá þetta mark svona snemma í seinni hálfleik?

„Það er högg að fá á sig mark svona snemma í seinni hálfleik. Síðan er ekkert endilega betra að spila með vindi þegar hann er svona mikill. Boltinn er að fleytast langt og þetta er bara erfitt.

Síðan var þetta brekka eftir að þeir komust yfir þar sem þeir lögðust fyrir framan markið sitt með tveimur rútum. Þeir spiluðu góðan varnarleik sem við áttum bara fá svör við,“ sagði Ólafur.

Hvernig sérðu framhaldið fyrir þér í þessum riðli?

„Við þurfum bara að halda áfram. Það er allt ennþá opið í þessum riðli og næst er það leikur hér heima gegn Litháen og svo er leikur við Danmörku eftir það. Við þurfum bara að sækja stig i þeim leikjum til að eiga möguleika,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert