Þetta er ennþá í okkar höndum

Leikmenn Íslands niðurlútir eftir tapið í dag.
Leikmenn Íslands niðurlútir eftir tapið í dag. mbl.is/Eyþór Árnason

Ólafur Ingi Skúlason þjálfari U21 landsliðs Íslands í knattspyrnu karla segir möguleika liðsins ennþá góða um að lenda í einu af tveimur efstu sætunum þrátt fyrir tap gegn Wales í dag.

Spurður að því hvort úrslitin í kvöld þar sem Ísland tapaði 2:1 hafi verið sanngjörn sagði Ólafur Ingi þetta:

„Já, þegar við horfum á leikinn í heild sinni þá gerðum við ekki nóg til að vinna hann. Ég held meira að segja að Lúkas hafi bjargað okkur nokkrum sinnum í markinu þegar við vorum að reyna hvað mest.

Við vorum jafnvel að reyna of mikið, vorum óþolinmóðir og létum boltann ekki ganga nógu mikið. Þetta mark gaf þeim aukna orku og gerir okkur ennþá óþolinmóðari í að sækja mark.“

Það hefur eðlilega verið viðbúið að Ísland lægi til baka í fyrri hálfleik með vindinn í fangið en að sama skapi hlítur það að hafa verið mikið áfall að fá mark á sig strax í byrjun seinni hálfleiks þegar planið hefur væntanlega verið að sækja fast á Wales með vindinn í bakið?

„Jú klárlega. Við vorum nokkuð ánægðir með fyrri hálfleikinn að hafa haldið hreinu. Mér fannst við standa vörnina vel og komast ágætlega upp völlinn svona inn á milli. Við héldum þeim ofarlega því þeir eru góðir inni í teig með fyrirgjöfum og föstum leikatriðum þannig að við héldum þeim frá markinu okkar.

Síðan ætluðum við okkur að stíga ofar og setja pressu á þá í síðari hálfleik. Síðan bjóðum við upp á þetta mark og það gefur þeim mikla orku. Á sama tíma verðum óþreyjufullir, hættum að tengja saman sendingar og ógnum þeim ekki eins og við hefðum viljað,“ sagði hann.

Nú eru tveir leikir gegn Litháen og Danmörku næst. Hverjir eru möguleikar Íslands núna í þessum riðli?

„Möguleikarnir eru bara þeir að við verðum að vinna leikinn á móti Litháen til þess að komast í þá stöðu að spila úrslitaleik gegn Danmörku í leik sem við verðum að vinna líka.

Við erum búnir að sýna það að við getum unnið Dani en þetta snýst um að klára fyrst Litháen og það er næsta verkefni. Til þess að eiga möguleika þá er það fyrsta skrefið.“

Þannig að þú metur stöðu liðsins þannig að þetta sé ennþá í ykkar höndum?

„Þetta er ennþá í okkar höndum og það er gott að við þurfum ekki að treysta á aðra en við verðum að gera betur en við gerðum í dag. Það er alveg ljóst,“ sagði Ólafur Ingi að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert