Gylfi: Skorum alltaf 4-5 á móti KR

Gylfi býr sig undir að taka aukaspyrnu í dag.
Gylfi býr sig undir að taka aukaspyrnu í dag. Eyþór Árnason

Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Vals var kátur er hann ræddi við mbl.is eftir sigur á KR, 4:1, í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. Valur komst í 2:0 og skoraði síðan tvö mörk í stöðunni 2:1.

„Við skoruðum tvö mörk með góðum skotum og mér fannst við vera með stjórn á þessu þangað til þeir skora. Þeir voru meira með boltann í seinni hálfleik en ég held þetta hafi verið verðskuldað.“

Gylfi lék með landsliðinu í Tyrklandi í síðustu viku, þar sem nokkrir leikmenn veiktust. Gylfi slapp við pestina sem gekk manna á milli. „Ég var veikur á móti Svartfjallalandi en var síðan góður eftir það.“

Mikill hasar braust út þegar Gylfi var straujaður hressilega við hliðarlínuna af Ástbirni Þórðarsyni á 54. mínútu. Einhverjir Valsmenn vildu sjá rautt spjald. „Ég þarf að sjá þetta aftur. Hann var ekki nálægt boltanum. Ég verð að sjá þetta betur,“ sagði hann.

Sigurinn var kærkominn fyrir Val, eftir fáa sigra undanfarnar vikur. „Eftir svekkjandi tap á móti Víkingi, þar sem við vorum 2:0 yfir, var gott að ná að bæta við eftir að þeir minnka þetta í 2:1. Við vorum flottir í vörninni.“

Gylfi lék við KR í deildarleik í fyrsta skipti í kvöld, en mikill rígur er á milli KR og Vals. „Við skorum alltaf 4-5 mörk á móti þeim, svo þetta er fínt,“ sagði Gylfi, en fyrri leikurinn endaði 5:3 í Vesturbæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert