Hvar mætast toppliðin í lokaumferðinni?

Það er mikið í húfi hjá bæði Fylki og Víkingi …
Það er mikið í húfi hjá bæði Fylki og Víkingi í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Í kvöld ræðst hvort það verður Breiðablik eða Víkingur sem verður á toppi Bestu deildar karla í fótbolta að lokinni tvöfaldri umferð, 22 leikjum á lið, og um leið hvort liðið verður á heimavelli í lokaumferð Íslandsmótsins laugardaginn 26. október.

Breiðablik er með 49 stig eftir sigurinn á HK í gær, 5:3, en Víkingar eru með 46 stig og heimsækja botnlið Fylkis í kvöld klukkan 19.15. 

Vinni Vikingar leikinn enda þeir í efsta sætinu á betri markatölu en Blikarnir og verða á heimavelli gegn Kópavogsliðinu í lokaumferðinni.

Taki Fylkir stig af Víkingum fara Blikar á toppnum inn í síðustu fimm umferðir mótsins og verða á heimavelli gegn Víkingi í síðustu umferðinni en líkur eru á að það verði hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn.

Fylkir er með 17 stig á botninum en færi upp í tíunda sætið, upp fyrir HK og Vestra, með sigri í kvöld. Vestri er með 18 stig og HK 20. Endi leikurinn með jafntefli fer Fylkir upp í ellefta sætið á betri markatölu en Vestri.

Valur og KR mætast í hinum leik kvöldsins sem hefst líka klukkan 19.15. Valsmenn eru í þriðja sæti, ellefu stigum á eftir Víkingum, og eru í hörðum slag um Evrópusæti við ÍA, Stjörnuna og FH sem eru einu og tveimur stigum á eftir þeim.

KR endar í níunda sæti og verður í neðri hlutanum en liðið er þremur stigum fyrir ofan fallsæti, með 21 stig, eins og staðan er núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert