Blússandi sóknarbolti og gott stress

Andrea Rut Bjarnadóttir með boltann í dag.
Andrea Rut Bjarnadóttir með boltann í dag. Arnþór Birkisson

Mér fannst við vera vel undirbúnar og góð stemmning, var búinn að lofa einhverjum blússandi sóknarbolta en átti þá ekki við að það yrði hjá báðum liðum,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks eftir 4:2 sigur á FH er liðin mættust í efstu deild kvenna í fótbolta í Kópavoginum í dag en FH skoraði fyrsta mark leiksins á 5. mínútu.

„Mér fannst lélegt hjá okkur, aðallega þá hjá mér, að fá fyrsta markið á okkur þeirra en ég er bara ánægð með hvernig við snerum þessu við á tuttugu mínútna kafla.  Í raun voru þetta óþarfa mörk, sem við erum að fá á okkur og við eigum að betur en ég er ánægð með þessi þrjú stig. Við höfum í allt sumar bara spáð í okkar leiki, það þýðir ekkert annað en vinna okkar leiki og við erum á toppnum.“

Næsti leikur Blika og jafnframt síðasti leikur mótsins er gegn Val og hreinn úrslitaleikur því Breiðablik er með 60 stig en Valur 59 og Blikar hafa ekki hampað stórum bikar í nokkur ár. „Við viljum alltaf vinna titla, höfum gert það í öll þessi ár og stundum gerist það og stundum ekki en ég finnst nú tími til að vinna bikar og það er alveg nægur hvati í næsta leik,“ bætti fyrirliðinn við. 

Auðvitað er stress en gott stress

Andrea Rut Bjarnadóttir hefur átt fína leiki fyrir Breiðablik í sumar, oft á miðjunni en snögg og leikinn þegar þarf að bregða sér í sóknir enda skoraði hún eitt af mörkum Breiðabliks í 4:2 sigri. „Við höfum undanfarið ekki lent mikið undir og raunar á öllu tímabilinu svo þetta var smá högg þegar FH skoraði  svona snemma en ég var ánægð með hvernig við komum til baka. Mér fannst FH-liðið spila eins og ég átti von á, það er gott í pressunni og öflugt fram á við en mér fannst við taka leikinn yfir þegar við skorum þriðja markið okkar,“ sagði Andrea Rut eftir leikinn.

Framundan er úrslitaleikur við Val næstu helgi.  „Við erum nú alveg tilbúnar fyrir leikinn gegn Val, höfum reyndar verið það í langan tíma og það þarf ekki að búa til neina hvata fyrir okkur. Auðvitað er stress að fara í svona stóra leiki en það er bara gott stress,“ bætti Andrea Rut við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert