Verðmætasti leikur ársins á Laugardalsvelli

Frans Elvarsson, fyrirliði Keflavíkur, og Aron Elí Sævarsson, fyrirliði Aftureldingar, …
Frans Elvarsson, fyrirliði Keflavíkur, og Aron Elí Sævarsson, fyrirliði Aftureldingar, stilla sér upp með bikarnum eftirsótta í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í vikunni. Ljósmynd/KSÍ

​Keflavík og Afturelding mætast í hreinum úrslitaleik um sæti í Bestu deild karla í knattspyrnu á Laugardalsvelli í dag klukkan 14.

Þetta er í annað sinn sem leikið er með þessum hætti í 1. deildinni en tillaga um breytingar á ákvæðum í mótafyrirkomulagi 1. deildar karla var samþykkt með miklum meirihluta á ársþingi KSÍ í febrúar árið 2022 í Ólafssal í Hafnarfirði.

Talað hefur verið um leikinn sem 50.000.000 króna leikinn þar sem verðmæti þess, að leika í efstu deild, er metið á um 50 milljónir íslenskra króna.

Bæði lið byrjuðu mótið í ár illa en Keflavík hafnaði í neðsta sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð á meðan Afturelding hafnaði í 2. sæti 1. deildarinnar. Afturelding fór alla leið í úrslit umspilsins í fyrra eftir að hafa unnið sannfærandi sigur gegn Leikni úr Reykjavík, 5:1, í undanúrslitunum. Mosfellingar töpuðu hins vegar í úrslitum umspilsins gegn Vestra, 1:0, en Vestri hafnaði í 4. sæti 1. deildarinnar síðasta sumar.

Keflavík vann tvisvar í sumar

Keflavík endaði í 2. sæti deildarinnar í ár með 38 stig, stigi minna en ÍBV sem fór beint upp í Bestu deildina. Keflvíkingar gerðu jafntefli gegn Njarðvík í næstsíðustu umferðinni og reyndist það dýrkeypt. Liðið hafði betur gegn ÍR, sem hafnaði í 5. sætinu, í undanúrslitunum, samanlagt 6:4.

Afturelding hafnaði í 4. sæti deildarinnar með 36 stig, einu stigi minna en Fjölnir, en liðin mættust í undanúrslitum umspilsins. Þar hafði Afturelding betur, samanlagt 3:1, en Afturelding vann fyrri leikinn í Mosfellsbæ 3:1 og liðin gerðu svo markalaust jafntefli í síðari leiknum í Grafarvogi.

Liðin hafa mæst tvívegis í sumar í deildinni. Keflavík vann fyrri leikinn í Keflavík, 3:0, í 3. umferðinni þar sem Sami Kamel skoraði tvívegis fyrir Keflavík og Valur Þór Hákonarson eitt mark. Síðari leik liðanna, í 14. umferðinni, lauk svo með 3:1-sigri Keflavíkur í Mosfellsbæ þar sem Edon Osmani, Mihael Mladen og Valur Þór Hákonarson skoruðu mörk Keflavíkur en Georg Bjarnason skoraði mark Aftureldingar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert