Verður Breiðablik Íslandsmeistari í dag?

Breiðablik og Valur eru í hörðum slag um Íslandsmeistaratitilinn.
Breiðablik og Valur eru í hörðum slag um Íslandsmeistaratitilinn. Eggert Jóhannesson

Breiðablik getur tryggt sér Íslandsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu í dag þegar tveir leikir fara fram í Bestu deildinni.

Þegar tveimur umferðum er ólokið er Breiðablik með 57 stig en Valur 56 í einvíginu um meistaratitilinn. Þór/KA og Víkingur eru langt á eftir með 33 stig hvort í þriðja og fjórða  sæti.

Breiðablik fær FH í heimsókn á Kópavogsvöll en Valur sækir Víking heim í Fossvoginn.

Ef Breiðablik vinnur FH og Valur tapar fyrir Víkingi er Breiðablik orðið Íslandsmeistari fyrir lokaumferðina, fjórum stigum á undan Val.

Ef Breiðablik vinnur FH og leikur Vals og Víkings endar með jafntefli er meistaratitillinn sama og í höfn hjá Kópavogsliðinu.

Þá getur Valur reyndar jafnað stigatöluna með sigri í leik liðanna í lokaumferðinni en Breiðablik er þegar með fjórtán mörkum betri markatölu og Valur þyrfti því að vinna þann úrslitaleik með minnst átta marka mun.

En ef tvö stig eða minna skilja að Breiðablik og Val eftir að leikjum dagsins loknum er ljóst að viðureign þeirra á Hlíðarenda í lokaumferðinni laugardaginn 5. október verður hreinn úrslitaleikur þeirra á milli um Íslandsmeistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert