Arnór ekki valinn vegna veikindanna

Arnór Sigurðsson fyrir æfingu með íslenska landsliðinu í síðasta mánuði.
Arnór Sigurðsson fyrir æfingu með íslenska landsliðinu í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnór Sigurðsson, kantmaður Blackburn Rovers og íslenska landsliðsins, er ekki í leikmannahópi íslenska landsliðsins sem Åge Hareide tilkynnti í dag.

Á fjarfundi á Teams í dag tilkynnti Hareide að Arnór væri enn að glíma við eftirköst þess að hafa veikst í síðasta landsliðsverkefni í síðasta mánuði.

Kom hann inn á sem varamaður í sigri á Svartfjallalandi á heimavelli en kom ekki við sögu gegn Tyrklandi á útivelli.

Arnór hefur ekki spilað neitt með Blackburn síðan þá og tekur því ekki þátt í leikjum gegn Wales og Tyrklandi í Þjóðadeild Evrópu síðar í þessum mánuði.

Hann var þó á varamannabekknum hjá Blackburn í ensku B-deildinni í gær, án þess að koma við sögu, og virðist því vera að rofa til hjá Skagamanninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert