Landsliðsmaður til Stjörnunnar

Samúel Kári Friðjónsson á æfingu með íslenska landsliðinu árið 2019.
Samúel Kári Friðjónsson á æfingu með íslenska landsliðinu árið 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Samúel Kári Friðjónsson er genginn til liðs við Stjörnuna þar sem hann skrifaði undir samning sem gildir til næstu fjögurra ára.

Samúel Kári er 28 ára miðjumaður sem kemur á frjálsri sölu eftir að hafa verið síðast á mála hjá Atromitos í Grikklandi, þar sem hann lék síðustu tvö tímabil.

Hann á átta A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd og var í lokahópnum fyrir HM 2018 í Rússlandi. Síðasti landsleikur Samúels Kára kom í nóvember árið 2019.

Stærstan hluta ferilsins hefur hann leikið í Noregi þar sem Samúel Kári var á mála hjá Vålerenga frá 2016 til 2020 og lék sem lánsmaður hjá Viking árið 2019. Síðar lék hann með liðinu frá 2020 til 2022.

Einnig var Samúel Kári leikmaður Paderborn í Þýskalandi árið 2020, þar sem hann lék í efstu deild, og hóf atvinnumannsferilinn hjá Reading á Englandi árið 2013 eftir að hafa alist upp hjá Keflavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka