Knattspyrnumaðurinn Samúel Kári Friðjónsson er genginn til liðs við Stjörnuna þar sem hann skrifaði undir samning sem gildir til næstu fjögurra ára.
Samúel Kári er 28 ára miðjumaður sem kemur á frjálsri sölu eftir að hafa verið síðast á mála hjá Atromitos í Grikklandi, þar sem hann lék síðustu tvö tímabil.
Hann á átta A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd og var í lokahópnum fyrir HM 2018 í Rússlandi. Síðasti landsleikur Samúels Kára kom í nóvember árið 2019.
Stærstan hluta ferilsins hefur hann leikið í Noregi þar sem Samúel Kári var á mála hjá Vålerenga frá 2016 til 2020 og lék sem lánsmaður hjá Viking árið 2019. Síðar lék hann með liðinu frá 2020 til 2022.
Einnig var Samúel Kári leikmaður Paderborn í Þýskalandi árið 2020, þar sem hann lék í efstu deild, og hóf atvinnumannsferilinn hjá Reading á Englandi árið 2013 eftir að hafa alist upp hjá Keflavík.