Fer heim og fæ mér einn ískaldan

Pétur Pétursson á hliðarlínunni í dag.
Pétur Pétursson á hliðarlínunni í dag. Ólafur Árdal

Pétur Pétursson þjálfari kvennaliðs Vals í fótbolta rétt missti af fjórða Íslandsmeistaratitlinum í röð er liðið gerði markalaust jafntefli við Breiðablik í hreinum úrslitaleik á Hlíðarenda í dag. Valur þurfti að vinna til að verða meistari.

„Þetta var góður leikur hjá tveimur liðum sem vildu vinna mótið. Mótið okkar tapaðist ekki í dag. Ég vil óska Blikakonum til hamingju með titilinn. Þær eru besta liðið í ár.

Okkur vantaði að skora mark og við fengum færin til þess. Þær fengu líka sín færi. Þetta mót tapaðist ekki í dag. Ég vil þakka stelpunum fyrir frábært tímabil og óska Blikum aftur til hamingju,“ sagði Pétur við mbl.is.

„Þetta er sjötta árið þar sem við erum annað hvort meistarar eða í úrslitaleik. Ég er stoltur af því að hafa náð því öll þessi ár,“ bætti hann við.

Valskonur reyndu hvað þær gátu til að skora sigurmarkið í lokin en illa gekk að reyna almennilega á Telmu Ívarsdóttur í marki Breiðabliks.

„Þetta eru tvö bestu liðin og þú færð ekki mikið af færum. Þú þarft bara að fá eitt færi og skora einu sinni,“ sagði hann.

Rúmlega 1.600 manns mættu á leikinn í dag og slógu í leiðinni áhorfendametið í efstu deild kvenna.

„Það er stórkostlegt að sjá fulla stúku hjá Val,“ sagði Pétur, sem sleikir sárin með einum köldum í kvöld.

„Ég ætla að fara heim að fá mér einn ískaldan,“ svaraði hann aðspurður um hvað tæki við næst. En á næsta ári?

„Ég er með tvö ár eftir af mínum samning og Valur ætlar sér alltaf að verða Íslands- og bikarmeistari og komast áfram í Meistaradeildinni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert