Sérstaklega sætt að klára þetta á Valsvelli

Breiðablik er Íslandsmeistari árið 2024.
Breiðablik er Íslandsmeistari árið 2024. Ólafur Árdal

Varnarmaðurinn Elín Helena Karlsdóttir var kampakát þegar hún ræddi við mbl.is í dag, enda nýbúin að verða Íslandsmeistari í fótbolta með uppeldisfélaginu Breiðabliki eftir jafntefli við Val í úrslitaleik á Hlíðarenda.

„Ég get eiginlega ekki lýst þessu. Það komu alls konar tilfinningar sem ég get eiginlega ekki útskýrt. Við erum búnar að vinna svo hart að þessu og það er sérstaklega sætt að klára þetta á Valsvelli,“ sagði hún.

Það var nóg að gera hjá Elínu og liðsfélögum hennar í vörninni undir lokin, þegar Valsliðið reyndi hvað það gat til að skora sigurmarkið og tryggja sér titilinn.

„Mér leið alltaf vel. Þær fengu einhver færi og þetta var svolítið tæpt í lokin en mér leið samt alltaf eins og við værum ekki að fá á okkur mark,“ sagði hún.

Elín Helena Karlsdóttir
Elín Helena Karlsdóttir Eggert Jóhannesson

Um hreinan úrslitaleik var að ræða, þar sem Breiðablik var með stigi meira en Valur fyrir lokaumferðina í dag. Yfir 1.600 manns mættu í stúkuna á Hlíðarenda, sem er nýtt áhorfendamet í efstu deild kvenna.

„Þetta hefur smá stress en aðallega spenningur síðustu daga. Þetta er leikurinn sem við vildum og höfum verið að bíða eftir. Það var smá stress í bland við stemningu og spenning.

Það er geðveikt að sjá stúkuna græna. Það er magnað að heyra í áhorfendunum og þetta skiptir okkur ótrúlega miklu máli að heyra í þeim. Þeir hjálpa okkur í gegnum þetta.“

Elín er uppalin hjá Breiðabliki en var að vinna sinn fyrsta titil sem leikmaður í meistaraflokki.

„Ég er búin að horfa á þetta lið vinna þetta nokkrum sinnum þegar ég var yngri, þar sem ég er uppalin í Breiðabliki. Þetta er búið að vera draumur og það er geggjað að fá að upplifa þetta.

Ég kom aðeins inn í þetta þegar þær unnu 2018 og 2020, þá var ég aðeins í kringum liðið. Það gerir mann enn þá hungraðri í að gera þetta sjálfur. Það gerist ekki betra en að klára þetta fyrir framan fulla stúku á Valsvelli,“ sagði Elín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka