Sendi Fylki niður á sjöundu mínútu uppbótartíma

Matthias Præst með boltann í leiknum í kvöld en Dagur …
Matthias Præst með boltann í leiknum í kvöld en Dagur Örn Fjeldsted og Eiður Gauti Sæbjörnsson elta hann. mbl.is/Ólafur Árdal

Fylkir er fallinn úr Bestu deild karla í fótbolta eftir jafntefli, 2:2, gegn HK í Kórnum í dag.

Allt stefndi í sigur Fylkismanna sem hefðu þá enn átt von um að halda sér uppi en á sjöundu mínútu í uppbótartíma jafnaði Brynjar Snær Pálsson metin fyrir HK.

Vestri með 25 stig og HK með 22 eru því í baráttunni um að halda sér uppi í lokaumferðunum tveimur en Fylkir er fallinn með 18 stig

Leikurinn var opinn og líflegur frá fyrstu mínútu og greinilegt að bæði lið þurftu sigur og ekkert annað. Mikið var um hraðar sóknir og hálffærin komu á báða bóga fram eftir fyrri hálfleiknum.

Atli Þór Jónasson framherji HK fékk það besta á 33. mínútu þegar Ólafur Kristófer Helgason í marki Fylkis varði skalla hans af stuttu færi.

Matthias Præst var nærri því að brjóta ísinn fyrir Fylki á 43. mínútu en Christoffer Petersen varði vel frá honum úr miðjum vítateig.

HK náði síðan forystunni á 45. mínútu. Birnir Breki Burknason sendi boltann frá hægri inn á markteiginn, Eiður Gauti Sæbjörnsson fleytti honum lengra og Atli Þór Jónasson kom boltanum yfir línuna eftir baráttu við varnarmann.

HK komið í 1:0 og örstuttu síðar flautaði Pétur Guðmundsson til hálfleiks.

Fylkismenn voru ekki lengi að jafna í seinni hálfleik því á 47. mínútu skoraði Þóroddur Víkingsson með skalla af markteig eftir sendigu Arnórs Breka Ásþórssonar frá endamörkum vinstra megin, 1:1.

HK-ingar fengu þrjú góð færi á næstu fimm mínútum, Atli Þór það besta þegar hann fékk tíma til að taka boltann niður rétt utan markteigs en skaut síðan yfir markið.

En Fylkir náði forystunni á 59. mínútu, 2:1. Arnór Breki átti skot vinstra megin úr vítateignum sem Christoffer Petersen varði með fótunum út í teiginn. Þar var Benedikt Daríus Garðarsson fyrstur að átta sig og skoraði með föstu skoti.

Fylkismenn virtust ætla að halda fengnum hlut með mikilli baráttu það sem eftir lifði leiks og áttu hættulegar sóknir inn á milli.

Atli Þór var næstur því að jafna fyrir HK þegar hann skallaði í stöng í uppbótartímanum.

En á sjöundu mínútu hans tók George Nunn hornspyrnu frá vinstri. Boltinn hrökk út undir vítapunkt þar sem Brynjar Snær Pálsson náði að leggja hann fyrir sig og skjóta undir alla þvöguna í markteignum, 2:2.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

HK 2:2 Fylkir opna loka
90. mín. 6 mínútum bætt við
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert