Hugarfarsblaðran sprakk

Hallgrímur Jónasson.
Hallgrímur Jónasson. mbl.is/Ólafur Árdal

KA tapaði 4:0 á heimavelli í dag gegn KR í Bestu-deild karla. Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var langt því frá að vera brjálaður eftir leik en leit bara raunsætt á hlutina.


Stórt tap hjá ykkur í dag. Þið áttuð kannski ekki neitt annað skilið.


„Nei. Þetta var bara sanngjarnt. Við hefðum getað skorað mörk, fengum færi og dauðafæri en þeir svo sem líka. Mér finnst stærðin ekki skipta máli. Það er meira að ég er svekktur með hugarfarið og frammistöðuna. Það eru strákarnir líka. Við ræddum það eftir leik að þetta sé tilfinning sem þeir skulu muna eftir. Ef maður fer ekki í grunngildin, hleypur ekki, vinnur ekki návígi eða er tilbúinn til að verjast nóg þá á maður ekki skilið að vinna fótboltaleiki. Annað liðið í dag hafði virkilegan áhuga á að vinna og að öllu að keppa. Í síðustu viku náðum að halda mómentinu fínu og fengum fjögur stig eftir bikarúrslitin. Í dag finnst mér ég sjá liðið mitt í fyrsta skipti dapurt. Hugarfarsblaðran sprakk og því fór sem fór.“


Það mátti nú alveg sjá tvískipt lið í dag. Það voru nokkrir leikmenn virkilega sprækir í dag og börðust grimmilega.


„Það er hárrétt. Ég sagði við strákana í hálfleik að ég gæti gert fleiri skiptingar. Við gerðum þrjár því ég vildi eiga eitthvað eftir í pokahorninu þegar liði á seinni hálfleikinn. Það voru alveg menn inni á milli sem lögðu sig fram. En það er bara þannig í fótbolta að það er langt frá því að vera nóg. Það þurfa allir að leggja sig fram. Það jákvæða er að það koma ungri strákar inn sem fá dýrmæta reynslu. Þegar hinir leikmennirnir eru ekki með nógu gott hugarfar þá er bara best að fá aðra inn. Þeir fengu dýrmætar mínútur og ég sá fínar rispur frá þeim. Það er kannski ósanngjarnt að dæma þá út frá leik sem fer svona.“


Það má alveg segja að þið hafið verið miklu betri í seinni hálfleiknum, sérstaklega fram að þriðja marki KR. Það vantaði bara fleiri færi og mörk.


„Já við vorum bara nokkuð góðir. Ég fékk góð viðbrögð eftir hálfleikinn. Við ræddum bara saman á rólegu nótunum. Mér fannst þetta bara flott en við náðum ekki að skora og svo má segja að þriðja mark KR hafi útkljáð þetta. Okkur langar að ná sjöunda sætinu og við getum þá ekki spilað tvo síðustu leikina svona. Við tökum þessa tilfinningu með okkur og nýtum hana til að mæta eins og menn í næsta leik.“


Steinþór Már sagði í viðtali um daginn að þið ætluðuð að vinna þrefalt.


„Það er bara svoleiðis. Það er Kjarnafæðisbikarinn, Mjólkurbikarinn og Forsetabikarinn. Það er bara mikilvægt að hafa að einhverju að keppa þannig að við mætum með alvöru hugarfar í næstu leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert