Víkingar björguðu stigi gegn Stjörnunni

Ari Sigurpálsson með boltann í leiknum í dag.
Ari Sigurpálsson með boltann í leiknum í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Víkingur og Stjarnan áttust við í efri hluta Bestu deildar karla í fótbolta í dag og endaði leikurinn með jafntefli 2:2.

Eftir leikinn eru Víkingar með 56 stig í fyrsta sæti deildarinnar en síðar í kvöld eigast við Breiðablik og Valur og getur Breiðablik náð toppsætinu. Stjarnan er í fjórða sæti með 39 stig, jafn mörg og Valsmenn sem geta komist í 42 stig með sigri á Breiðabliki.

Það fór ekkert á milli mála að enginn ætlaði að gera mistök í leik dagsins. Bæði lið voru mjög varkár í aðgerðum sínum og gáfu lítið færi á sér.

Guðmundur Baldvin Nökkvason átti fyrsta skot leiksins en það fór í varnarmann. Fyrsta færið í leiknum kom á 23. mínútu leiksins þegar Óli Valur Ómarsson komst einn inn fyrir vörn Víkinga en Pálmi Rafn Arinbjörnsson varði vel frá honum í horn. Besta færi leiksins til þessa.

Víkingar áttu nokkur ágæt færi en boltinn fór ýmist framhjá eða var varinn af Árna Snæ Ólafssyni í marki Stjörnunnar.

Á 42. mínútu leiksins keyrði Ari Sigurpálsson inn í miðja vörn Stjörnunnar sem galopnaði allar dyr fyrir honum. Það nýtti hann sér og keyrði inn í teig og fékk galopið skotfæri sem Árni Snær varði glæsilega en skot Ara ekki nægilega gott.

Staðan í hálfleik 0:0 á Víkingsvelli.

Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri allt fram á 64. mínútu þegar Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga gerði fjórfalda breytingu á liði sínu. Jökull I. Elísabetarson gerði þá tvöfalda breytingu á sínu liði.

Strax í kjölfarið varð Pálmi Rafn markvörður Víkinga fyrir meiðslum þegar hann hljóp út úr markinu til að hreinsa boltann frá og þurfti aðhlynningu. Mátti sjá eftir þetta að hann haltraði.

Níu mínútum síðar skaut Daði Berg Jónsson í þverslá fyrir Víkinga en strax í kjölfarið fékk Emil Atlason boltann á eigin vallarhelmingi, keyrði yfir miðjuna og skaut að marki Víkinga. Boltinn sveif yfir Pálma í markinu og staðan 0:1 fyrir Stjörnuna.

Eftir þetta tognaði Oliver Ekroth að því er virtist frekar illa aftan í læri og þurti Arnar að nota síðustu skiptingu sína.

Á 84. mínútu jöfnuðu Víkingar þegar Óskar Örn Hauksson var með boltann inni í teig Stjörnunnar, náði að senda hann á Viktor Örlyg Andrason sem skoraði og jafnaði leikinn í 1:1.

Stuttu síðar voru Stjörnumenn nálægt því að ná forystunni á ný þegar Óli Valur skaut í stöngina. Þremur mínútum síðar var hann aftur á ferðinni þegar hann keyrði upp hægri kantinn, gaf boltann fyrir á Hilmar Árna Halldórsson sem afgreiddi boltann snyrtilega í netið og staðan 1:2 fyrir Stjörnuna.

Þegar komið var langt inn í uppbótartíma jafnaði Óskar Örn Hauksson fyrir Víkingaa þegar hann átti dúndurskot fyrir utan teig sem hafði viðkomu í varnarmanni og fír þaðan í markið. Staðan orðin 2:2 sem var niðurstaða leiksins.

Augljóslega mátti sjá að Evrópuleikurinn í Kýpur sat í Víkingum enda ansi stutt á milli leikja hjá liðinu.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Víkingur R. 2:2 Stjarnan opna loka
90. mín. 7 mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert