Völlurinn ekki boðlegur

Sverrir, númer 5, fúll yfir að fá ekki víti.
Sverrir, númer 5, fúll yfir að fá ekki víti. mbl.is/Eyþór

„Það voru mörg atvik sem við leikmenn stjórnum ekki. Það var svekkjandi að tapa þessum leik, sérstaklega þegar við jöfnum seint í leiknum,“ sagði varnarmaðurinn Sverrir Ingi Ingason eftir tapið gegn Tyrkjum, 4:2, í Þjóðadeildinni í fótbolta í kvöld.

„Mér fannst meðbyrinn með okkur og við ætluðum að skora þriðja markið og vinna leikinn. Við fáum á okkur tvö mörk í staðinn, sem er svekkjandi,“ sagði hann.

Skrítið að hafa ekki fengið víti

Ísland vildi fá víti og rautt spjald í stöðunni 2:1 þegar varnarmaður Tyrkja virtist verja boltann með handleggnum á marklínunni þegar boltinn var á leiðinni inn í markið. Stuttu áður hafði Tyrkland fengið sitt annað víti vegna hendi innan teigs.

„Miðað við hvernig dómarinn var að dæma vítin, þá er skrítið að við höfum ekki fengið víti. Hann virðist verja boltann á línunni með handleggnum. Hann gerði sig stærri og það á að vera víti og rautt. Við stjórnum þessu ekki, en við erum ekki þekktir fyrir að fá hag með dómgæslunni,“ sagði Sverrir, sem er ósáttur við að fá á sig fjögur mörk í kvöld.

„Við gerum mistök í síðustu tveimur mörkunum. Í síðasta markinu þeirra erum við að reyna að jafna leikinn. Þeir eru með mikil gæði og það er erfitt að fá á sig fjögur mörk og ætla að vinna leiki. Við þurfum að fækka mörkunum sem við fáum á okkur.

Síðasti leikurinn

Til greina kom að fresta leiknum þar sem grasið á Laugardalsvellinum er ekki í góðu standi vegna frosts undanfarna daga.

„Völlurinn er ekki boðlegur vegna slysahættu. Hann var glerharður og sleipur. Við töpuðum ekki leiknum út af því. Þetta var síðasti leikurinn áður en við skiptum um gras og vonandi getum við spilað leiki á þessum árstíma án þess að hafa áhyggjur af því,“ sagði Sverrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert