Valur fann strax arftaka Fanneyjar

Tinna Brá Magnúsdóttir er gengin til liðs við Val.
Tinna Brá Magnúsdóttir er gengin til liðs við Val. Ljósmynd/Valur

Valur hefur samið við knattspyrnumarkvörðinn Tinnu Brá Magnúsdóttur um að leika með liðinu næstu þrjú ár. Kemur Tinna frá Fylki, þar sem hún hafði leikið undanfarin fjögur tímabil eftir að hafa alist upp hjá Gróttu.

Samningur Tinnu við Fylki rennur út í næsta mánuði og getur hún þá formlega gengið til liðs við Val. Fyrr í kvöld tilkynnti Valur að búið væri að selja aðalmarkvörðinn Fanneyju Ingu Birkisdóttur til Häcken í Svíþjóð.

„Það er geggjað að vera búin að semja við Val sem er auðvitað eins og allir vita í fremstu röð þegar kemur að kvenna íþróttum. Maður finnur það þegar maður kemur að Hlíðarenda hversu mikill metnaður er í öllu hérna.

Valur er frábært félag og hér ætla ég að vera. Ég hlakka sérstaklega til þess að vinna með Gísla markmannsþjálfara aftur, en við þekkjumst vel frá því ég var í Gróttu,“ sagði Tinna í tilkynningu frá knattspyrnudeild Vals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka