Skrítið að sjá Blikaliðið svona á heimavelli

Heiðar Ægisson skoraði jöfnunarmark Stjörnunnar.
Heiðar Ægisson skoraði jöfnunarmark Stjörnunnar. mbl.is/Ólafur Árdal

Breiðablik hafði betur gegn Stjörnunni í 26. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Kópavoginum í kvöld. Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.

„Mér fannst við frábærir í þessum leik. Mér fannst við vera með fulla stjórn á honum, megnið af leiknum. Kannski aðeins þangað til að þeir skora fyrra mark sitt þá hleyptum við leiknum upp.

Svo tökum við yfir aftur og mér finnst við vera ofan á í öllu. Alveg sama hvar það snertir niður. Hrikalega ánægður með liðið og skrítið að sjá Blikaliðið svona á heimavelli,“ sagði Jökull í viðtali við mbl.is.

Stjarnan fékk fullt af góðum færum til að bæði jafna metin og taka forystuna.

„Stundum er þetta svona og það er allt í lagi. Við töpum okkur ekki yfir úrslitunum í dag. Þegar við horfum á leikinn og sjáum hvað er í gangi út á vellinum þá getum við verið nokkuð brattir með liðið,“ sagði Jökull.

Þið hafið spilað vel undanfarið og eruð í góðum möguleika á Evrópusæti. Finnst þér þú hafa séð mikla bætingu á liðinu yfir tímabilið?

„Ég held að stóra ástæðan að við sitjum ekki í þriðja sæti er að við tókum smá niðursveiflu um mitt mót, eftir líka erfiða byrjun framan af. Ég held að það sé klárlega bæting og við stýrum eiginlega öllum leikjum núna ofan á. Það er klárlega bæting.“

Stjarnan mætir FH í lokaleik tímabilsins á laugardaginn. Liðið þarf að sigra og vonast til að Valur tapi í möguleika á að ná þriðja sætinu og þar með sæti í Evrópu.

„Ekkert stærri leikur en aðrir og ekkert öðruvísi en aðrir. Við förum og ætlum að stýra leiknum og vera með stjórn á honum, skapa færi og halda hreinu. Bara sama og alltaf,“ sagði Jökull að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert