Ekki okkar hlutverk að skila boltanum

Atli Hrafn Andrason hjá HK fær flugferð í návígi við …
Atli Hrafn Andrason hjá HK fær flugferð í návígi við Djenaro Daniels í Kórnum í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, sagði við mbl.is að það hafi ekki verið hlutverk HK að skila boltanum til Fram í umdeildu atviki undir lok leiks liðanna í Bestu deild karla í fótbolta í Kórnum í kvöld.

Guðmundur Magnússon fyrirliði Fram lagðist á völlinn í uppbótartímanum, þegar staðan var 1:1, og fékk aðstoð við að teygja. Ólafur Íshólm markvörður liðsins var þá með boltann í höndunum og sparkaði honum útaf við hornfána, til þess að Guðmundur gæti fengið aðhlynningu.

Til hennar kom ekki og Birkir Valur Jónsson tók innkastið fyrir HK-inga sem stilltu upp fyrir hefðbundið langt innkast. Rétt á eftir fékk HK aukaspyrnu og upp úr henni skoraði Þorsteinn Aron Antonsson sigurmark Kópavogsliðsins, 2:1.

Framarar voru afar ósáttir, innan sem utan vallar, og eftir að flautað var af kom til stimpinga á milli manna inni á vellinum.

Áttuð þið ekki að skila boltanum?

„Hvað eiga menn að gera í þessari stöðu? Ég held að það sé ekki okkar hlutverk að senda boltann til baka. Gummi Magg var ekki meiddur, hann lét teygja á sér í einhverjar 10 sekúndur.

Sjúkraþjálfarinn kom ekki inn á, við getum ekki verið að samþykkja að það séu búin til stopp til þess að menn geti hvílt sig þegar við liggjum á þeim undir lok leiksins.

Mér finnst það ekki vera okkar að láta þá fá boltann og þeir gátu gert fjölmargt annað við boltann úr höndunum á Ólafi en að setja hann út af við hliðina á hornfánanum.

Við vorum að sækjast eftir sigri, þeir gáfu okkur færi og við tókum það.“

Ég tók þessa ákvörðun

Þetta var sem sagt ykkar ákvörðun á bekknum?

„Já, ég tók þessa ákvörðun á hliðarlínunni um leið og boltinn fór útaf. Ég kallaði í Birki Val og sagði honum að þessi bolti ætti að fara langur inn í teiginn hjá Fram.

Það var ekki eins og að við hefðum skorað upp úr þessu innkasti, það áttu ýmsir hlutir eftir að gerast áður en við skoruðum markið, en þetta fór eitthvað í hausinn á þeim.

En ef þetta er ólöglegt að einhverju leyti þá tek ég það á mig. En það er þá einhver vitneskja sem ég hef ekki," sagði Ómar Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert