Ósammála landsliðsþjálfaranum um Gylfa Þór

Arnar Grétarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Åge Hareide.
Arnar Grétarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Åge Hareide. Ljósmynd/Kristinn Steinn/Alex Nicodim

„Nú veit ég ekki alveg hver staðan á Gylfa er en ef við gerum ráð fyrir því að hann sé heill þá er ég ekki sammála þessum málflutningi,“ sagði knattspyrnuþjálfarinn Arnar Grétarsson í Fyrsta sætinu.

Arnari var sagt upp störfum sem þjálfara Vals í Bestu deild karla byrjun ágústmánaðar en hann hefur einnig stýrt Breiðabliki, Roeselare í Belgíu og KA á þjálfaraferlinum. Þá lék hann 71 A-landsleik fyrir Ísland og var atvinnumaður Grikklandi og Belgíu í tæpan áratug. 

Leikurinn hentaði ekki Gylfa

Arnar þjálfaði Gylfa Þór Sigurðsson hjá Val í sumar en Gylfi kom ekkert við sögu í tapi Íslands gegn Tyrklandi í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildarinnar á Laugardalsvelli, hinn 14. október.

Åge Hareide, þjálfari íslenska liðsins, sagði meðal annars á blaðamannafundi eftir tapið að leikurinn gegn Tyrkjum hefði ekki hentað Gylfa. 

„Gylfi þarf að spila þegar við erum með meiri stjórn á leikjunum. Við vorum að elta leikinn í kvöld og ég tel það ekki henta Gylfa vel. Við getum svo sannarlega notað hann þegar við erum með stjórn á leiknum því hann er frábær á boltann,“ sagði Hareide meðal annars.

Frábær á boltanum

„Gylfi er frábær á boltanum og tapar ekki mörgum boltum,“ sagði Arnar

„Hann heldur boltanum vel og hann tekur nánast alltaf rétta ákvörðun, í 9,9 skipti af 10. Hann er mjög klókur leikmaður og duglegur. Maður hefði haldið að það hefði verið gott að fá hann inn á í þessum aðstæðum. Hann getur tekið á móti boltanum, haldið honum á meðan liðið færir sig ofar og mögulega fundið síðustu sendinguna í gegn á fljóta menn frammi.

Mér finnst þessi málflutningur ekki eiga rétt á sér en það er algjörlega mín skoðun. Ég er ekki að segja að mín skoðun sé réttari en hans og það er alltaf möguleiki að setja fljótari leikmann inn á en þá lendum við í því að geta ekki haldið boltanum,“ sagði Arnar meðal annars.

Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan eða með því að smella hér. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert