Stoltur af strákunum

Ragnar Bragi Sveinsson.
Ragnar Bragi Sveinsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, spjallaði við mbl.is eftir leik liðsins gegn KR í Árbænum í kvöld. Leikurinn endaði 0:1 fyrir gestunum en Fylkismenn misstu mann af velli í fyrri hálfleik og þurftu því að vera falla vel niður mestan hluta leiksins.

„Þetta var skrýtinn leikur, við erum fallnir, lendum undir eftir 4 mínútur, erum manni færri eftir 28. mínútur og þá hugsar maður að þetta getur orðið eitthvað afhroð. En við ætluðum að sýna frammistöðu sem við getum verið stoltir af og við gerðum það, við fengum ekki fleiri mörk á okkur og fengum meira að segja ágætis sénsa til að skora. Þannig að heilt yfir er ég þokkalega sáttur miðað við stöðuna.“

Í kjölfar rauða spjaldsins áttu einhverjir von á að KR gæti keyrt yfir heimamenn í seinni hálfleik í ljósi þess að KR hafði skorað talsvert í síðustu tveimur leikjum en annað kom á daginn og Fylkismenn náðu að verjast vel. Leikurinn fjaraði út í seinni hálfleik og var ekki mikið fyrir augað.

„Leikurinn deyr svolítið enda leikur sem skiptir bæði lið ekki miklu máli. Við ætluðum að spila okkar leik hér á heimavelli og spila uppá stoltið. Þetta snýst um það enda erum við íþróttamenn og viljum skilja í góðu um sinn í Bestu deildinni. Við ætluðum bara alls ekki að vera okkur til skammar þrátt fyrir skakkaföllin í fyrri hálfleik - og líka fallnir í ofanálag. Það hefði getað orðið hættulega staða. Ég er stoltur af strákunum hvernig við unnum útúr þessum aðstæðum,“ sagði Ragnar Bragi Sveinsson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert