Þetta var ótrúlegt í kvöld

Þorsteinn Aron Antonsson í skallaeinvígi við Guðmund Magnússon fyrirliða Fram …
Þorsteinn Aron Antonsson í skallaeinvígi við Guðmund Magnússon fyrirliða Fram í leiknum í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

„Ég veit eiginlega ekki hvernig stendur á þessu," sagði Þorsteinn Aron Antonsson, varnarmaður og hetja HK-inga gegn Fram í Bestu deild karla í fótbolta í Kórnum í kvöld.

Þorsteinn skoraði sigurmarkið í lok uppbótartímans, 2:1, en fyrr á tímabilinu skoraði hann tvisvar sigurmark gegn Fram, í 2:1 sigri í Úlfarsárdal og 1:0 í Kórnum. Þetta eru einmitt þau þrjú mörk sem varnarmaðurinn hefur skorað á tímabilinu.

„Ég elska bara að skora á móti Fram og þetta var ótrúlegt í kvöld," sagði Þorsteinn við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

Um markið sagði Þorsteinn: „Það kom hár bolti inn í teiginn og ég sá að Eiður Gauti myndi vinna þennan skallabolta. Ég tók sprettinn inn í vítateiginn og fékk boltann beint í lappirnar og náði að koma honum í netið."

Markið var gríðarlega mikilvægt fyrir HK sem með sigrinum kom sér í betri stöðu í fallslagnum við Vestra fyrir lokaumferðina um næstu helgi.

„Við erum ekkert hættir að trúa á að við getum bjargað okkur. Við erum staðráðnir í að vinna næsta leik vona svo það besta," sagði Þorsteinn og viðurkenndi að þetta hefði verið afar erfiður leikur gegn Frömurum.

„Hann var það svo sannarlega. Við þurftum að kreista út sigurinn, sérstaklega eftir að hafa byrjað seinni hálfleikinn illa. En svo fannst mér við komast betur inn í leikinn á ný og vera betri aðilinn á lokakaflanum," sagði Þorsteinn.

Ég elska að vera í HK

Hann er að ljúka sínu fyrsta tímabili í eftu deild en Þorsteinn gekk til liðs við Val frá Selfossi fyrir ári síðan og kom svo sem lánsmaður til HK út þetta tímabil.

„Mér líður afar vel hérna, ég elska að vera í HK. Það er mjög góður klefi og skemmtilegir strákar, þetta hefur verið mikill skóli og reynsla fyrir mig að spila hérna mitt fyrsta tímabil í efstu deild," sagði Þorsteinn sem er samningsbundinn Val næstu tvö árin.

„Ég reikna með því að fara aftur til Vals en nú hugsa ég um ekkert annað en KR-ingana. Við ætlum að gera allt til þess að vinna þann leik, sagði Þorsteinn Aron Antonsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert