Gylfi Þór ósammála Åge

Gylfi Þór Sigurðsson og Åge Hareide.
Gylfi Þór Sigurðsson og Åge Hareide. Ljósmynd/Samsett

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Vals og íslenska landsliðsins í knattspyrnu, kveðst ósammála fullyrðingum landsliðsþjálfarans Åge Hareide á fréttamannafundi eftir 2:4-tap Íslands fyrir Tyrklandi í B-deild Þjóðadeildar Evrópu í síðustu viku.

Gylfi Þór kom ekki inn á sem varamaður í leiknum og útskýrði Hareide þá ákvörðun með eftirfarandi hætti:

„Gylfi þarf að spila þegar við erum með meiri stjórn á leikj­un­um. Við vor­um að elta leik­inn í kvöld og ég tel það ekki henta Gylfa vel. Við get­um svo sann­ar­lega notað hann þegar við erum með stjórn á leikn­um því hann er frá­bær á bolt­ann.“

Gengið ágætlega hingað til

„Það var leiðinlegt að koma ekki inn á þegar liðið þurfti mark,“ sagði Gylfi Þór í samtali við Fótbolta.net eftir leik Vals gegn FH í Bestu deildinni á laugardag. Miðjumaðurinn reyndi var svo spurður hvort hann væri sammála þessu mati norska þjálfarans.

„Nei. Ég held að síðustu 15 eða jafnvel 100 ár hafi Ísland ekki verið meira með boltann nema kannski á móti einhverjum smærri þjóðum.

Það hefur alveg gengið ágætlega hingað til að spila á móti liðum þar sem við erum kannski ekki mikið með boltann,“ sagði Gylfi Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert