Kveðjuleikur Birkis á ferlinum á laugardag

Birkir Már Sævarsson í leik með Val í haust.
Birkir Már Sævarsson í leik með Val í haust. mbl.is/Ólafur Árdal

Knattspyrnumaðurinn Birkir Már Sævarsson, einn af leikjahæstu landsliðsmönnum Íslandssögunnar, er að leggja skóna á hilluna og spilar kveðjuleik sinn þegar Valur mætir ÍA í lokaumferð Bestu deildarinnar á laugardaginn.

Valsmenn skýrðu frá þessu á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Birkir verður fertugur í nóvember en hann er þriðji leikjahæsti leikmaður karlalandsliðs Íslands með 103 landsleiki og spilaði með íslenska landsliðinu bæði á EM 2016 og HM 2018.

Hann lék alla átta leiki Íslands á stórmótunum tveimur, fimm á EM í Frakklandi og þrjá á EM í Rússlandi, alla í byrjunarliði í stöðu hægri bakvarðar sem hefur verið hans staða allan ferilinn.

Valur er eina íslenska félagið sem Birkir hefur leikið með en hann spilaði með meistaraflokki Vals frá 2003 til 2008 og aftur frá 2018 til dagsins í dag.

Þrátt fyrir að hafa leikið í níu ár erlendis sem atvinnumaður hefur Birkir spilað 212 leiki fyrir Val í efstu deild, þar af 24 af 26 leikjum liðsins á þessu tímabili, og hann er sjötti leikjahæsti leikmaður félagsins í efstu deild.

Birkir Már Sævarsson með boltann í hinum fræga sigurleik Íslands …
Birkir Már Sævarsson með boltann í hinum fræga sigurleik Íslands gegn Englandi á EM 2016. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Birkir lék með Brann í norsku úrvalsdeildinni frá 2008 til 2014 þar sem hann lék 168 deildarleiki, og með Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni frá 2015 til 2017 þar sem hann lék 84 deildarleiki.

Samtals hefur Birkir því leikið 475 deildarleiki á ferlinum, og hefur skorað í þeim 35 mörk, og er tíundi leikjahæsti knattspyrnumaður Íslandssögunnar á þeim vettvangi, þrátt fyrir að hafa aldrei spilað í deild þar sem leikir eru fleiri en 30 á einu tímabili.

Birkir var aldrei í yngri landsliðum Íslands en spilaði með 21-árs landsliðinu árið 2006 og lék síðan fyrsta A-landsleikinn  gegn Liechtenstein í undankeppni EM 2. júní 2007.

Hans 103. og síðasti landsleikur var gegn Norður-Makedóníu í undankeppni HM 14. nóvember 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert