Viðar Örn tjáir sig um gróusögurnar

Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. mbl.is/Ólafur Árdal

Knattspyrnumaðurinn Viðar Örn Kjartansson var í síðustu viku úrskurðaður í sex mánaða keppnisbann af Alþjóðaknattspyrnusambandinu FIFA vegna óuppgerða skulda við sitt fyrrverandi félag CSKA 1948 Sofiu í Búlgaríu.

Framherjinn, sem er 34 ára gamall, lék með búlgarska liðinu á síðasta ári en hann gekk til liðs við félagið síðasta sumar og lék alls 13 leiki með liðinu þar sem hann skoraði eitt mark. Hann rifti samningi sínum í Búlgaríu í desember á síðasta ári.

Viðar Örn gekk svo til liðs við KA á Akureyri fyrir yfirstandandi tímabil og hefur skorað 6 mörk í 22 leikjum með KA í Bestu deildinni í sumar.

Metnaðurinn tók dýfu

Viðar hefur verið mikið á milli tannanna á fólki á undanförnum árum þar sem hann hefur meðal annars verið sakaður um áfengis- og veðmálavandamál en hann reynir að láta umræðuna ekki hafa of mikil áhrif á sig.

„Ég er orðinn vanur þessu að einhverju leyti. Ég er búinn að sætta mig við það að fólki finnist gaman að tala um mig, kannski er það karakterinn eða týpan. Ég veit ekki hvort fólk haldi að ég sé hrokafullur en fólk er allavega duglegt að setja upphrópunarmerki fyrir framan nafnið mitt þegar það er skrifað um mig í fjölmiðlum. Þetta er eitthvað sem ég hef enga stjórn á. Ég skal samt alveg viðurkenna það að síðasti vetur var þungur fyrir mig persónulega og erfiður.

Metnaðurinn hjá mér tók smá dýfu líka. Það er bara þannig að það er erfitt að koma aftur til Íslands eftir langan tíma í atvinnumennsku og það tók aðeins á. Sama hvað fólk segir þá hef ég staðið mig frábærlega frá því að ég gekk til liðs við KA. Metnaðurinn er kominn aftur og ég er fyrst og fremst að hugsa um það að standa mig vel á vellinum í dag. Ég hef ekki gert neitt sem á slæma umfjöllun skilið. Það verða alltaf einhverjar sögur í gangi um mig, ég er búinn að sætta mig við það. Ég reyni að láta þetta ekki hafa of mikil áhrif á mig en ég er líka mennskur,“ bætti Viðar Örn í samtali við mbl.is.

Viðtal við Viðar Örn þar sem hann tjáir sem meðal annars um sex mánaða keppnisbannið sem hann var úrskurðaður í má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert