Býst við að Víkingar séu nægilega svalir

Miron Muslic situr fyrir svörum á fréttamannafundi fyrr í mánuðinum.
Miron Muslic situr fyrir svörum á fréttamannafundi fyrr í mánuðinum. AFP/Kurt Desplenter

„Okkur líður mjög vel og erum fullir sjálfstrausts. Ég tel okkur hafa byrjað deildarkeppnina stórkostlega með góðum leik gegn St. Gallen þar sem við unnum stórt,“ sagði Miron Muslic, þjálfari Cercle Brugge, fyrir leik liðsins gegn Víkingi í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu karla á morgun.

„Því erum við fullir sjálfstrausts og viljum halda góðu gengi okkar áfram. Við vitum að Víkingur hefur yfir sterku liði að skipa. Þeir eru líkamlega sterkir. Við horfðum á síðustu 4-5 leiki liðsins og nokkra leiki í undankeppni í Evrópu.

Þeir eru með vel uppbyggt lið, eru vel skipulagðir og með 3-4 leikmenn sem eru mjög hættulegir upp við mark andstæðinganna. En ég tel okkur búa yfir nægilega miklum gæðum til þess að valda þeim miklum vandræðum og vinna að lokum leikinn. Það er auðvitað markmiðið,“ sagði Muslic á fréttamannafundi á Kópavogsvelli í dag.

Í Evrópukeppni í fyrsta sinn

Cercle Brugge byrjaði á því að vinna St. Gallen 6:2 í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar en hefur gengið erfiðlega í belgísku A-deildinni þar sem liðið er í næstneðsta sæti með níu stig eftir 11 leiki.

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Ein af þeim er að við erum að spila í riðlakeppni í Evrópu í fyrsta sinn í sögu félagsins og erum að spila þrisvar sinnum í viku í fyrsta sinn. Þá erum við með eitt yngsta liðið í Evrópu og að ég held yngsta liðið í Sambandsdeildinni.

Við erum með mikið af leikmönnum sem hafa ekki spilað margar mínútur og búa ekki yfir mikilli reynslu. En þetta er nákvæmlega það sem við vildum. Við vissum það þegar við tryggðum okkur sætið og við vitum líka að við erum svolítið eftir á í deildinni heima.

En ég held að á næstu vikum og mánuðum munum klifra upp töfluna í deildinni. Við myndum gjarna vilja halda áfram að njóta Evrópu og koma okkur á réttan kjöl heima. Leikmenn eru mjög bjartsýnir á að það takist,“ sagði hann um erfiða byrjun liðsins í deildinni.

Vitum af stórum leik Víkings á sunnudag

Spurður hvað bæri að varast í leik Víkings á morgun sagði Muslic:

„Þetta hefur verið erfið vika og við ferðuðumst í margar klukkustundir í dag. Í einn stað er það indælt en í annan stað er það krefjandi og erfitt. Ef við lítum út er þetta glænýr völlur fyrir okkur að spila á, gervigrasvöllur á ný.

Það góða fyrir okkur er að við upplifðum svona völl fyrir tveimur mánuðum gegn Kilmarnock á útivelli og því er þetta ekki fullkomlega nýtt fyrir okkur. Við vitum að Víkingur er með mjög samkeppnishæft og sterkt lið. Við vitum að þeir eiga stóran leik fyrir höndum á sunnudag.

Þegar ég skoða stöðuna í íslensku deildinni og hversu mörg stig þessi lið hafa unnið sér inn sé ég að þetta er hreinn úrslitaleikur á sunnudag. En ég tel að þeir séu nægilega svalir og einbeittir til þess að stilla upp sínu besta liði á morgun og ég býst við því að þeir verði upp á sitt besta.“

Víkingur mætir Breiðabliki í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn næstkomandi sunnudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert