Inn í klefa og allir í sund

Gísli Gottskálk Þórðarson á fleygiferð í dag.
Gísli Gottskálk Þórðarson á fleygiferð í dag. mbl.is/Eyþór

Gísli Gottskálk Þórðarson átti góðan leik fyrir Víking er liðið vann belgíska liðið Cercle Brugge í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta í kvöld. Urðu lokatölur á Kópavogsvelli 3:1.

„Það var gaman að spila þennan leik. Það er aðeins öðruvísi að spila í svona stórri keppni. Fiðringurinn er meiri, en eftir 20 mínútur var þetta eins og hver annar leikur og við vorum drullugóðir í dag,“ sagði Gísli við mbl.is eftir leik.

Var sigurinn sá fyrsti á þessu stigi í Evrópukeppni hjá íslensku liði.

„Það er heiður og gaman að fá að vera partur af þessu liði og líka að fá að taka þátt í þessari keppni og gera okkur gildandi með því að vinna leik. Við ætlum ekki bara að vera með.“

Víkingar fá lítinn tíma til að fagna því fram undan er hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn við Breiðablik á sunnudag.

„Við erum spenntir. Við fögnum ekkert í kvöld, heldur förum við beint inn í klefa og allir í sund. Ég væri til í að klára þetta á sunnudaginn og svo aðeins anda. Það er búið að vera mikið af leikjum og það væri mjög gott að klára þetta á sunnudaginn.“

Með sigrinum opnar Víkingur möguleikana á að komast enn lengra í keppninni. „Við viljum nýta heimaleikina eins og við getum. Við erum betri en grasliðin á gervigrasi. Útileikirnir eru erfiðari og þetta er því gott skref,“ sagði Gísli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka