Enn sætara að fá loks að spila

Guðrún Arnardóttir verst Yazmeen Ryan í gærkvöldi.
Guðrún Arnardóttir verst Yazmeen Ryan í gærkvöldi. AFP/Johnnie Izquierdo

Cecilía Rán Rúnarsdóttir lék sinn fyrsta landsleik í yfir ár í 3:1-tapi Íslands fyrir Bandaríkjunum í vináttulandsleik þjóðanna í knattspyrnu í Nashville í gærkvöldi. 

Ísland mætti Bandaríkjunum í tveimur leikjum ytra. Báðir tveir fóru 3:1 fyrir heimakonum.

„Þetta er hundfúlt. Við kannski bjuggumst ekki við því að vera hundfúlar eftir 3:1-tap fyrir verkefnið en erum það núna. 

Úrslitin gefa ekki rétta niðurstöðu af þessum leikjum,“ sagði Cecilía við KSÍ eftir leik. 

Enn sætara

Sáttar við frammistöðuna í heild sinni?

„Já, við erum ótrúlega sáttar. Við vorum ánægðar með frammistöðuna í fyrri leiknum og vildum halda því áfram í þessum leik. Mér finnst við geta gengið sáttar frá borði. 

Fúlt að hafa tapað en þetta eru bara vináttuleikir, tap eða sigur gefur ekkert.“

Þrátt fyrir að hafa fengið á sig alls sex mörk gegn ólympíumeisturunum varðist íslenska liðið á köflum vel.  

„Við erum að verjast mjög vel frá fremsta manni til aftasta. Varnarleikurinn sem við stöndum fyrir,“ bætti Cecilía við. 

Cecilía spilaði loks landsleik eftir ársfjarveru en hún var að glíma við erfið meiðsli. Hún kom aðeins inn í hópinn í undankeppni EM í sumar en spilaði loksins í gærkvöldi. 

„Þetta var geðveikt, það var skemmtilegt að koma inn í hópinn í júní en enn þá sætara að fá loksins að spila.“ 

Cecilía Rán Rúnarsdóttir á æfingu með íslenska landsliðinu.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir á æfingu með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert