Haraldur Haraldsson hefur óskað eftir því að láta störfum sem framkvæmdastjóri Víkings úr Reykjavík eftir 14 ára starf.
Frá þessu er greint á heimasíðu Víkings og Haraldi þakkað fyrir þann stóra þátt sem hann hefur átt í uppbyggingu félagsins á þessum tíma.
Karlalið Víkings í knattspyrnu hefur til að mynda orðið Íslandsmeistari í tvígang og unnið bikarkeppnina fjórum sinnum og kvennalið félagsins í knattspyrnu varð bikarmeistari á síðasta ári og hafnaði í þriðja sæti sem nýliði í Bestu deildinni á nýafstöðnu tímabili.
„Á þessum tíma hefur félagið stækkað og eflt umsvif sín til mikilla muna og á Haraldur gríðarlega mikinn þátt í þessum mikla vexti félagsins.
Í gegnum stjórnartíð Haraldar hefur félagið gengið í gegnum krefjandi uppbyggingartímabil en jafnframt tímabil mikillar velgengni.
Í öllum aðstæðum og verkefnum hefur Haraldur sýnt mikinn stöðugleika og festu í stýringu sinni og um leið væntumþykju gagnvart félaginu á öllum sviðum,“ sagði meðal annars um Harald í tilkynningunni.