Enski knattspyrnumaðurinn Gary Martin hefur samið við Bishop Auckland, sem leikur í utandeild á Englandi. Samdi Martin til tveggja ára.
Fótbolti.net greinir frá.
Bishop Auckland er í áttundu efstu deild Englands. Martin ólst upp hjá Middlesbrough og hefur einnig leikið með York City og Darlington í heimalandinu.
Martin tilkynnti í haust að dvöl hans á Íslandi væri lokið og að nú héldi hann heim á leið.
Alls hefur Martin leikið 234 leiki í þremur efstu deildum Íslands og skorað í þeim 123 mörk.
Lék hann með Víkingi frá Ólafsvík, Selfossi, ÍBV, Val, Víkingi úr Reykjavík, KR og ÍA hér á landi.