Stýra KR áfram

Páll Kristjánsson, Gunnar Einarsson og Ívar Ingimarsson.
Páll Kristjánsson, Gunnar Einarsson og Ívar Ingimarsson. Ljósmynd/KR

Gunnar Einarsson og Ívar Ingimarsson, þjálfarar kvennaliðs KR í knattspyrnu, hafa skrifað undir nýja samninga og taka því slaginn með liðinu í 1. deild á næsta tímabili.

Á sama tíma var gengið frá samningi við Gunnar um að hann verði yfirþjálfari yngri flokka kvenna auk þess sem Ívar mun stýra afreksþjálfun félagsins.

Á síðasta tímabili komu Gunnar og Ívar kvennaliði KR upp úr 2. deild eftir að liðið hafði fallið úr 1. deildinni sumarið 2023.

„Það er mikið gleðiefni að tilkynna um áframhaldandi ráðningar þeirra Gunnars Einarssonar og Ívars Ingimarssonar en þeir munu áfram stýra meistaraflokki kvenna á komandi tímabili.

Þá mun Gunnar jafnframt gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka kvenna og Ívar sem afreksþjálfari. Þá félaga þarf vart að kynna fyrir KR-ingum.

Gunnar lék m.a. um árabil með meistaraflokki KR en Gunnar hefur þjálfað hjá okkur undanfarin ár. Ívar er þaulreyndur fyrrum landsliðsmaður sem lék sem atvinnumaður um árabil. Ívar á að baki 73 leiki í ensku úrvaldsdeildinni og mun fleiri í enskri deildarkeppni.

Það er ljóst að leikmenn okkar eru í góðum höndum og bindum við miklar vonir við áframhaldandi samstarf,“ sagði Páll Kristjánsson formaður knattspyrnudeildar KR í tilkynningu frá deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert