„Það er bara stolt sem ég finn fyrir,“ sagði Danijel Dejan Djuric, sóknarmaður Víkings úr Reykjavík, sem átti frábæran leik er liðið vann Borac Banja Luka frá Bosníu og Hersegóvínu 2:0 í 3. umferð deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu á Kópavogsvelli í dag.
„Við fórum inn í þetta vitandi það að við vildum vinna þennan leik til þess að komast í góða stöðu fyrir næstu þrjá leiki. Það er geggjað að við náðum því,“ sagði Danijel í samtali við mbl.is eftir leik.
Víkingur tapaði hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn fyrir tæpum tveimur vikum. Spurður hvernig hafi gengið hjá Víkingum að jafna sig og gíra sig upp í leik dagsins sagði hann:
„Það gekk alveg vel. Ég get alveg viðurkennt það að fyrstu þrjá dagana vildi maður ekki úr rúmi. Maður skoðaði ekkert símann og vildi bara vera uppi í rúmi og gera ekki neitt.
Ég held að allir aðrir í liðinu hafi verið þannig líka. Þetta var mjög erfitt andlega eftir þennan leik en að koma hingað er mjög gott. Það hefði verið leiðinlegra að fara í frí.
Þá hefði maður eflaust verið í mánuð uppi í sófa eða rúmi. Það var geggjað að fá annan leik svona fljótlega og ná að vinna hann. Þetta er gott og allt á jákvæðu nótunum.“
Víkingsvöllur er ekki löglegur í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar og því leikur Víkingur heimaleiki sína á Kópavogsvelli. Víkingar hafa unnið tvo leiki í röð í deildarkeppninni og líður því vel í Kópavoginum.
Er Kópavogsvöllur orðinn að vígi ykkar í Evrópu?
„Já, hann þarf að vera það núna. Okkur finnst gaman að spila á þessum velli, þetta er orðin smá gryfja með þessum skiltum finnst mér.
Það er skemmtileg ára yfir þessu og það er einhvern veginn allt annað að koma hingað því þá veit maður að maður er að fara að spila Evrópuleik. Það er jákvætt finnst mér,“ sagði Danijel.
Hann var sífellt ógnandi í leiknum og sýndi oft skemmtilega takta þar sem hælspyrnur hans komu leikmönnum Borac nokkrum sinnum algjörlega úr jafnvægi og sköpuðu hættu.
„Mér fannst mjög gaman. Fólk sem horfði uppi í stúku sá örugglega að mér fannst gaman að spila leikinn í dag. Ég er að fara að skamma alla inni í klefa fyrir að hafa ekki gefið mér stoðsendingu.
Ég hefði átt að vera með tvær til þrjár stoðsendingar! Það bara datt ekki inn en ef ég skora ekki langar mig að leggja upp. Ég fer inn og skamma strákana!“ sagði Danijel um eigin frammistöðu.
Næst heldur Víkingur til Armeníu þar sem liðið mætir Guðmundi Þórarinssyni og félögum í Noah í 4. umferð deildarkeppninnar.
„Það verður langt ferðalag en mjög gaman. Ég hef aldrei komið til Armeníu þannig að það verður bara nýtt fyrir mér. Okkur langar að vinna hvern leik. Ef við náum því ekki væri jafntefli fínt og við myndum halda áfram.
Markmiðið okkar er sjö stig og við þurfum að einbeita okkur að því að ná því,“ sagði hann að lokum, en Danijel sagði Víkinga reikna með því að sjö stig nægi til þess að komast í umspil um sæti í 16-liða úrslitum.
Víkingur er þegar búinn að vinna sér inn sex stig og er því kominn í góða stöðu.