Åge: Hann vildi vera heima

Åge Hareide
Åge Hareide mbl.is/Karítas

Landsliðsmaðurinn Hjörtur Hermannsson er ekki í hópnum sem mætir Wales og Svartfjallalandi í Þjóðadeildinni í fótbolta síðar í mánuðinum.

Hjörtur hefur lítið spilað fyrir Carrarese á Ítalíu síðan hann kom til félagsins í sumar frá Pisa og þá var hann að eignast sitt annað barn á dögunum.

„Okkur vantar fleiri miðverði í hópinn. Hjörtur hefur ekki verið að spila í sínu liði og svo var eiginkona hans að fæða barn og hann vildi vera heima,“ sagði landsliðsþjálfarinn Åge Hareide í samtali við mbl.is í dag.

Hann sagði ekki marga leikmenn vera nálægt því að fá kallið í hópinn, sem voru ekki valdir.

„Annars var lítið um það. Það hefur enginn úr U21 árs liðinu bankað á dyrnar og svo vildi ég breyta hópnum eins lítið og ég gat. Við höfum gert ágætlega, þrátt fyrir að Hákon og Albert séu að glíma við meiðsli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert