Von er á miklum fjölda stuðningsmanna sænska félagsins Djurgårdens hingað til lands í desember í tilefni leiks karlaliðsins gegn Víkingi úr Reykjavík í 5. umferð deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu.
Leikurinn fer fram þann 12. desember á Kópavogsvelli.
„Þeir eiga alltaf rétt á fimm prósent af miðum miðað við 6.000 manna völl. Það er það sem þeir geta fengið á útivallarsvæðið. Svo eiga þeir líka rétt á að kaupa allt að 200 „Category 1“ miða.
Þá eru þetta orðnir 500 miðar og svo eru um 20 VIP-miðar og þess háttar,“ sagði Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, í samtali við mbl.is.
„Eins og staðan er í dag þá reiknum við með því að það verði hérna vel á fimmta hundrað. En svo getur þetta allt saman þróast eftir því hversu mikilvægur leikurinn verður fyrir þá.
Þá gæti komið einhver auka eftirspurn en eins og staðan er í dag liggjum við í svona 500 miðum,“ hélt hann áfram.
Aðspurður kvaðst Haraldur ekki hafa áhyggjur af því að hlutfall stuðningsmanna Djurgården verði of hátt samanborið við stuðningsmenn Víkings.
„Við náum að koma alveg 330 í litlu stúkuna hinum megin. Inni í þessari 500 tölu eru stuðningsaðilar fyrirtækja, þeir eru að taka hátt í hundrað slíka aðila. Það eru þægilegir áhorfendur, við setjum þá í aðalstúkuna.
En þetta harðkjarna lið, þetta „ultras“ lið, þeir eru nú með ansi öfluga slíka hjá Djurgården þannig að þeir verða allir settir hinum megin. Svo kallar þetta á aukna gæslu og allt það,“ sagði hann en hörðustu stuðningsmenn liðsins eru þekktir fyrir mikla ástríðu.
Á Kópavogsvelli er hægt að úthluta 1.700 miðum í Sambandsdeildinni.
„Það er hluti frátekinn af hálfu UEFA á alla þessa leiki, fyrir styrktaraðila keppninnar og slíkt. Það eru miðar sem við sendum út en þeim er síðan gjarna skilað aftur því eitthvað af þessum fyrirtækjum eru ekki með neina starfsmenn á Íslandi,“ útskýrði Haraldur.
Víkingur tilkynnti á dögunum að hann hafi óskað eftir því að láta af störfum sem framkvæmdastjóri eftir 14 ára starf. Haraldur er hins vegar ekki á förum á meðan Evrópuævintýri Víkings stendur.
„Ég hef alltaf gengið út frá því að vera hérna að minnsta kosti út febrúar. En ef við höldum áfram fram yfir það þá klárar maður það verkefni. Það verður farið að auglýsa stöðuna núna fljótlega,“ sagði hann að lokum.