Knattspyrnumaðurinn Ósvald Jarl Traustason, leikmaður Leiknis úr Reykjavík, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna.
Þetta tilkynntu Leiknismenn á samfélagsmiðlum sínum en Ósvald, sem er nýorðinn 29 ára gamall, hefur leikið samfleytt með Leikni frá árinu 2017.
Hann er uppalinn hjá Breiðabliki en hefur einnig leikið með Fram og Gróttu á ferlinum. Alls á hann að baki 32 leiki í efstu deild og eitt mark með Leikni og Fram.
Hann lék sex leiki með Leikni í 1. deildinni í sumar þegar liðið hafnaði í 8. sæti deildarinnar.