Robert Prosinecki, þjálfari karlalandsliðs Svartfjallalands í knattspyrnu, skýrði frá því á fréttamannafundi í Podgorica í dag hvernig lið sitt yrði skipað í leiknum gegn Íslandi í Þjóðadeildinni sem fram fer í Niksic á morgun.
Adam Marusic, varnarmaður Lazio á Ítalíu, og miðjumaðurinn Vladimir Jovovic, sem leikur með Sogdiana í Úsbekistan, eru reyndustu menn liðsins með rúmlega 60 landsleiki hvor. Markvörðurinn Igor Nikic leikur aðeins sinn þriðja landsleik en hann spilar með Decic í Svartfjallalandi og er eini leikmaðurinn í byrjunarliðinu sem leikur í heimalandinu.
Stevan Jovetic, framherji og lykilmaður Svartfellinga, verður í leikbanni vegna gulra spjalda og í byrjunarliðinu verða aðeins fjórir leikmenn sem hófu leik þjóðanna á Laugardalsvellinum í september, þegar Ísland vann 2:0.
Liðið verður þannig skipað:
Markvörður:
2/0 Igor Nikic, Decic
Varnarmenn:
63/4 Adam Marusic, Lazio
36/0 Igor Vujacic, Rubin Kazan
10/0 Nikola Sipcic, Cartagena
38/1 Risto Radunovic, FCSB Búkarest
Miðjumenn:
62/0 Vladimir Jovovic, Sogdiana Jizzakh
31/0 Marko Bakic, OFI Krít
4/0 Andrija Radulovic, Vojvodina Novi Sad
50/1 Marko Jankovic, Qarabag
19/2 Driton Camaj, Kisvárda
Framherji:
22/3 Nikola Krstovic, Lecce
Þeir Radunovic, Marusic, Jovovic og Krstovic hófu leikinn gegn Íslandi í haust og Camaj kom inn á sem varamaður. Hinir sex voru ýmist á bekknum eða ekki í hópnum.