Í hópnum eftir 19 mánaða fjarveru

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir er í íslenska landsliðshópnum í knattspyrnu í fyrsta sinn í rúmt eitt og hálft ár. Þorsteinn Halldórsson tilkynnti hóp fyrir vináttuleiki gegn Kanada og Danmörku á Spáni í hádeginu í dag.

Áslaug Munda, sem lék síðast landsleik í apríl á síðasta ári, er leikmaður Breiðabliks hér á landi en spilar með háskólaliði Harvard í Bandaríkjunum um þessar mundir, þar sem hún stundar nám.

Leikmaðurinn hefur átt í ýmis konar meiðslavandræðum undanfarin ár en Þorsteinn sagði á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag að nú virðist horfa til betri vegar.

„Staðan á henni er góð. Hún er búin að vera að spila í háskólaboltanum í rúmlega tvo mánuði og hefur gengið vel, hefur staðið sig vel. Ég ákvað að skoða hana í þessu verkefni og sjá raunverulega hvert standið á henni er nákvæmlega.

Hún er búin að ná fyrri styrk og er svona að nálgast sitt besta. Ég treysti á að hún sé í það góðu standi að hún sé nálægt þessu hjá okkur og geti verið í kringum þetta hjá okkur áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert